Lífið

Ótrúleg uppákoma á Óskarnum: Röng mynd lesin upp sem besta kvikmyndin

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Warren Beatty útskýrir hvað fór úrskeiðis.
Warren Beatty útskýrir hvað fór úrskeiðis. Vísir/Getty
Hið ótrúlega gerðist á Óskarsverðlaunahátíðinni í nótt þegar röng kvikmynd var tilkynnt sem besta kvikmyndin.

Hin goðsagnakenndu Faye Dunaway og Warren Beatty komust heldur betur í þann krappann þegar þau áttu að tilkynna hvaða mynd hefði hlotið verðlaunin fyrir bestu kvikmyndina. 

Þeir Mahershala Ali, leikari í Moonlight, og Ryan Gosling, leikari í La La Land, sjást hér skiptast á kveðju eftir atvikið óheppilegaVísir/Getty
Fyrst var myndin La La Land lesin upp og voru aðstandendur hennar komnir upp á svið og byrjaðir að flytja þakkarræður þegar í ljós kom að kvikmyndin Moonlight hefði raunverulega hreppt hnossið. Jordan Horowitz, einn framleiðanda La La Land steig þá fram og tilkynnti um mistökin.

Beatty hafði þó svör á reiðum höndum og sagði að þau hefðu fengið umslag í hendurnar þar sem á stóð „Emma Stone - La La Land“ en Stone hafði aðeins mínútum áður hlotið verðlaun sem besta leikkonan í aðalhlutverki. 

Aðstandendur La La Land tóku fréttunum þó af mikilli ró og afhentu verðlaunin auðmjúkir í réttar hendur. Það verður þó að segjast að atvikið var heldur vandræðalegt eins og sjá má hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×