Enski boltinn

Ótrúleg endurkoma þegar Leicester skellti Man. Utd. | Sjáðu mörkin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leicester vann ótrúlegan 5-3 sigur á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í dag en gestirnir komust bæði 2-0 og 3-1 yfir í leiknum.

Sigurinn var lyginni líkastur en vandræði United í vörninni virðast engan endi ætla að taka en til að bæta gráu á svart misstu þeir rauðu hinn unga Tyler Blackett af velli með rautt spjald.

Stjarna leiksins var Jamie Vardy en hann kom að öllum mörkum Leicester í leiknum.

Robin van Persie kom United yfir snemma leiks með fínu skallamarki eftir fyrirgjöf Falcao áður en Angel Di Maria jók forystuna fyrir gestina með frábærri vippu yfir Kasper Schmeichel í markinu.

En aðeins mínútu síðar komu brotalamir United í vörninni í ljós er Leonardo Ulloa skoraði með skalla eftir sendingu Vardy frá hægri.

Van Gaal á erfiða daga í vændum.Vísir/Getty
United virtist þó hafa gert út um leikinn með marki Ander Herrera á 57. mínútu eftir undirbúning Di Maria. En annað átti eftir að koma á daginn.

Leicester komst aftur inn í leikinn með marki úr vítaspyrnu sem reyndist rangur dómur. Rafael gerðist vissulega brotlegur þegar hann felldi Vardy í teignum en stuttu áður hafði Vardy brotið sjálfur á Rafael.

David Nugent skoraði úr aukaspyrnunni og aðeins tveimur mínútum síðar kom jöfnunarmarkið. Esteban Cambiasso gerði það og aftur átti Vardy stoðsendinguna.

Di Maria skoraði og lagði upp í dag en það dugði ekki til.Vísir/Getty
Leikmenn United virtust einfaldlega slegnir af laginu. Heimamenn gengu á lagið og aðeins þremur mínútum eftir að Juan Mata kom inn á fyrir United tapaði hann boltanum á miðjunni og Leicester komst í sókn. Ritchie De Laet gaf á Vardy sem kórónaði stórkostlegan leik með því að skora, einn gegn De Gea í markinu.

Vardy var svo enn og aftur í eldlínunni á 83. mínútu þegar hann vann boltann af hinum seinheppna Blackett sem brást við því með því að elta Vardy uppi og brjóta á honum. Víti var dæmt og Blackett fékk að líta rauða spjaldið.

Heimamenn héldu áfram að sækja eftir þetta en 5-3 reyndist niðurstaðan í ótrúlegum knattspyrnuleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×