Innlent

Ótrúleg atburðarás í kjölfar líkamsárásar á Reyðarfirði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Líkamsárásin varð á Kaffi Kósý á Reyðarfirði í september 2013.
Líkamsárásin varð á Kaffi Kósý á Reyðarfirði í september 2013. Vísir/GVA
19 ára karlmaður var á dögunum sýknaður af ákæru um að hafa kýlt annan karlmann og sparkað í inni á skemmtistað á Reyðarfirði í september 2013. Óhætt er að segja að málið sé allt hið undarlegasta þar sem sá sem fyrir árásinni varð skipti skyndilega um skoðun hver hefði á hann ráðist.

Upphaflega lagði 21 árs karlmaður fram kæru á hendur 32 ára karlmanni vegna árásarinnar en dró hana til baka mánuði síðar. Sagðist hann hafa náð sáttum við árásarmanninn og vildi ekki að málið færi lengra. Lögreglan hélt hins vegar rannsókn sinni áfram og varð úr að bæði þá sem fyrir árásinni varð og sá sem hann kærði bentu á 17 ára pilt sem hinn seka.

Fór svo að gefin var út ákæra á hendur piltinum sumarið 2014 og var dómur kveðinn upp á dögunum. Engin sönnun þótti komin fram fyrir því að pilturinn væri sá seki í málinu. Hann var sá eini á svæðinu sem var ekki undir áhrifum áfengis.

Hér á eftir verður leitast við að lýsa atburðarásinni í þessu stórundarlega máli þar sem flest virðist benda til þess að þolandinn í málinu hafi breytt framburði sínum af ótta við þann sem á hann réðst.

Fimmtán ára aldursmunur á meintum árásarmönnum

Líkamsárásin varð inni á snyrtingu á Kaffi Kósý á Reyðarfirði aðfaranótt 29. september haustið 2013. Þolandinn, 21 árs karlmaður sem við skulum kalla Hauk, vildi ekki gefa upp á vettvangi hver hefði ráðist á sig. Í frumskýrslu lögreglu, fyrstu skýrslu sem rituð var vegna málsins, kemur fram að lögreglan hafi fengið þær upplýsingar að 32 ára karlmaður, sem við skulum kalla Lárus, hafi kýlt hann.

Haukur fór í læknisskoðun þann 2. október og kemur fram í vottorði undirrituðu af lækninum að Haukur segist hafa verið kýldur, vankast við höggið, fengið blóðnasir og nefbrotnað. Læknir staðfesti nefbrotið.

Rúmri viku síðar mætir Haukur á lögreglustöðina á Eskifirði og leggur fram kæru á hendur Lárusi fyrir að hafa kýlt sig og nefbrotið. Þá segir hann að 17 ára drengur, sem við skulum kalla Kjartan, hafi einnig sparkað tvívegis í sig þar sem hann lá eftir höggið frá Lárusi.

Kaffi Kósý á Reyðarfirði.Mynd/Heimasíða Kaffi Kósý
Sagðist hafa náð sáttum við Lárus

Mánuður líður, lögregla tekur skýrslu af Kjartani og fleiri vitnum, en svo mætir Haukur aftur á lögreglustöðina 8. nóvember. Nú í þeim tilgangi að draga kæruna til baka. Hann segist hafa náð sáttum við Lárus og vilji ekki að málið fari lengra. Rannsókn lögreglu heldur áfram þrátt fyrir ósk Hauks um að henni verði hætt.

Lárus neitar sök í skýrslu hjá lögreglu þann 5. desember. Segist heldur ekki hafa séð Kjartan sparka í Hauk. Mánuði síðar mætir Lárus að eigin frumkvæði til lögreglu og segist ætla að „segja sannleikann“. Það hafi verið Kjartan sem sparkaði sparkað í andlitið á Hauki. Bjarni, vinur Lárusar, geti staðfest framburð sinn.

Þá sýnir Lárus lögreglu Facebook-skilaboð sem hann segist hafa fengið frá Kjartani þar sem sá síðarnefndi biður um ráð við að þurrka blóð af skóm sínum. Segir hann Kjartan þar hafa verið að gorta sig af því að hafa ráðist á Hauk.

Kjartan neitar áfram sök en Haukur skiptir um skoðun

Þann 14. mars var svo tekin aftur skýrsla af Kjartani sem var þá komin með stöðu sakbornings. Hann vísaði í fyrri framburð sinni, afþakkaði aðstoð verjanda og neitaði sök.

Tveimur mánuðum síðar eða þann 17. maí segir Haukur lögreglu að það hafi verið Kjartan sem hafi sparkað í andlitið á sér umrætt kvöld og þannig nefbrotið sig. Það stangaðist á við fyrri framburð Hauks bæði hjá lögreglu og lækni.

Þann 25. júní 2014, níu mánuðum eftir að líkamsárásin var gerð, er gefin út ákæra í málinu á hendur Kjartani, þá orðinn átján ára.

Héraðsdómur Austurlands er á Egilstöðum.Vísir/Pjetur
„Skíthræddur“ við Lárus

Við aðalmeðferð málsins neitaði Kjartan enn alfarið sök. Hann hafi verið edrú á sama tíma og bæði Lárus og Haukur hafi verið ofurölvi er þeir voru allir saman á snyrtingunni. Hann hafi sjálfur yfirgefið snyrtinguna en svo komið aftur inn. Þá hafi Haukur verið blóðugur og svo hafi hann hafi séð Lárus kýla Hauk.

Allt hafi orðið „vitlaust“ fyrir utan Kaffi Kósý í kjölfarið. Haukur hafi komið út og blóð fossað úr nefi hans. Þannig hafi skór Kjartans orðið blóðugir. Aðspurður um skilaboðin sem hann sendi Lárusi á Facebook sagði Kjartan það hafa verið hluta af leikritinu, þ.e. að Lárus hafi viljað að Kjartan tæki á sig sökina.

Kjartan benti á að tveir til viðbótar hefðu verið inni á snyrtingunni. Annar þeirra hét Unnar. Hann kannist við Bjarna, sem Lárus sagði hafa orðið vitni að árásinni, en ekki orðið hans var á snyrtingunni. Þá sagðist Kjartan vita til þess að Lárus og Bjarni hefðu rætt saman um hvernig þeir myndu bera vitni í málinu.

Nokkrum dögum eftir árásina mætti Kjartan tvívegis sama daginn á lögreglustöðina og gaf skýrslu, sem vitni að meintri líkamsárás Lárusar á Hauk. Í fyrra skiptið kannaðist hann ekki við að Lárus hefði ráðist á Hauk en sneri aftur á lögreglustöðina seinna um daginn og breytti framburði sínum.

Aðspurður hvers vegna hann hefði ekki bent á Lárus strax bar hann við að hann væri „skíthræddur“ við Lárus. Hann hefði hótað að meiða systkini hans og koma á hann sök myndi hann segja satt og rétt frá. Honum hafi svo snúist hugur og snúið aftur á lögreglustöðina.

Fór að „muna þetta öðruvísi“

Haukur, sá er fyrir árásinni varð, sagðist fyrir dómi hafa verið blindfullur umrætt kvöld og einnig hafa verið í mikilli neyslu. Minnið væri eftir því. Hann sagði að Lárus hefði uppnefnt sig og föður sinn á snyrtingunni og hiti færst í leikinn.

Unnar hafi skorist í leikinn, sagt við Lárus að ætlaði hann að ráðast á Hauk yrði hann að fara í gegnum sig. Í kjölfarið hafi Lárus kýlt Unnar í andlitið og hann fallið á Hauk. Svo hafi Haukur fengið líklega tvö til þrjú spörk í andlitið. Hann sagðist handviss um að Kjartan hefði sparkað en óviss um hve mörg spörkin voru. Eins var hann sannfærður um að hann hefði hlotið nefbrotið af völdum sparks. Hins vegar var hann ekki viss hvort Kjartan hefði líka kýlt sig.

Aðspurður hvers vegna hann hefði upphaflega lagt fram kæru á hendur Lárusi, og sagt hann hafa kýlt sig og nefbrotið fyrst hann var nú svo viss um að spark frá Kjartani hefði valdið nefbrotinu, hélt Haukur því fram að hann hefði verið undir áhrifum vímuefna við skýrslutöku hjá lögreglu 7. október. Hann hafi síðar farið að „muna þetta öðruvísi“ eftir að hann rankaði við sér eftir neysluna.

Hann neitaði að hafa verið beittur þrýstingi eða hótunum en ítrekaði að hann hefði ekki viljað að rannsókn lögreglu héldi áfram eftir að hann dró kæruna á hendur Lárusi til baka. Þá sagðist hann ekki muna hvar á snyrtingunni árásin átti sér stað.

Frá Kaffi Kósý.Mynd/Heimasíða Kaffi Kósý
Sagði þá Kjartan vera vini

Lárus bar því við fyrir dómi að Kjartan hefði hvatt sig til að ráðast á Hauk á snyrtingunni umrætt kvöld. Gert grín að því hvað Haukur leyfði sér að segja við Lárus. Unnar hafi gengið á milli og allir hlegið þar til Haukur hafi hótað að siga handrukkara á sig. Það hafi gert Lárus reiðan og hann því reynt að kýla Hauk. Unnar hafi orðið fyrir högginu fyrir mistök og Lárus hugað að honum. Í sömu andrá hafi Kjartan byrjað að sparka í andlitið á Hauki. Spörkin hafi verið að lágmarki fimm og blóðið fossað. Kjartan yfirgaf aldrei snyrtinguna að sögn Lárusar.

Aðspurður hvers vegna hann hefði ekki sagt satt og rétt frá í upphafi bar Lárus því við að hann vildi ekki segja til Kjartans. Þótt fimmtán ára aldursmunur væri á þeim liti hann á hann sem vin. Þá hafi hann fundið til sektar enda átt hlut að máli við upphaf átakanna þótt hann hafi ekki slegið Hauk.

Lárus sagðist hafa breytt framburði sínum hjá lögreglu eftir að hafa fengið vitneskju um að Kjartan væri að bera sig sökum. Þá bætti hann við að hann teldi að yfirlögregluþjónn á Eskifirði hefði haft áhrif á framburð Kjartans. Þeir væru tengdir fjölskylduböndum.

Bauðst til að greiða sjúkrakostnaðinn

Lárus staðfesti að hafa komið Facebook-samskiptum þeirra Kjartans til lögreglu. Neitaði hann að hafa gefið Kjartani fyrirmæli um að senda skilaboðin. Þá fullyrti Lárus fyrir dómi að Kjartan hefði líka slegið Hauk í andlitið.

Aðspurður hvers vegna hann hefði ekki bent á vitnið Bjarna við fyrstu skýrslutöku sagðist hann ekki hafa viljað draga hann inn í málið. Hann viðurkenndi að hafa rætt við Bjarna í aðdraganda aðalmeðferðarinnar.

Þá staðfesti hann líka að hafa farið í bíltúr með Hauki, beðið hann afsökunar og beðið hann um að draga kæruna til baka. Hann hafi líka boðist til að greiða sjúkrakostnaðinn vegna nefbrotsins. Hann neitaði hins vegar að hafa reynt að hafa áhrif á framburð Hauks og vitna.

Frá Reyðarfirði.Vísir/Vilhelm
Sagðist hafa fengið mynd á Snapchat

Bjarni sagðist hafa neytt áfengis umrætt kvöld en ekki verið fullur. Hann hafi séð Hauk, Kjartan og Lárus á snyrtingunni og orðið vitni að rifrildi. Lárus hafi ýtt við Hauki og Kjartan svo sparkað í andlitið á Hauki. Hann hafi greinilega séð tvö spörk frá Kjatani í andlitið á Hauki.

Þá sagðist Bjarni hafa yfirgefið snyrtinguna fyrstur þeirra en síðar fengið Snapchat mynd senda frá Kjartani með mynd af blóðugum skóm hans. Fram kom við aðalmeðferðina að Bjarni og Lárus væru vinir. Hann neitaði að Lárus hefði reynt að hafa áhrif á framburðinn þótt þeir hefðu rætt saman fyrir aðalmeðferðina en ekki skýrslutökuna.

Lét Lárus biðjast afsökunar

Unnar sagðist í dómsal hafa verið mjög fullur umrætt kvöld. Hann hafi verið við snyrtinguna og einhver hafi ýtt við sér. Vinkona hans hafi orðið vitni að því sem gerðist og látið Lárus biðja sig afsökunar. Hann hafi sjálfur ekki munað hvernig hann fékk höggið. Hann sagðist hafa séð Hauk og Lárus á snyrtingunni en ekki Kjartan. Þá kannaðist hann við Bjarna en hins vegar hefði hann ekki séð hann á snyrtingunni. Unnar sagði engan hafa reynt að hafa áhrif á framburð sinn.

Við skýrslutöku þann 9. október sagði Unnar að Lárus hefði ruðst í gegnum sig. Hann mundi ekki eftir því að Lárus hefði ætlað að ráðast á Hauk. Að öðru leyti var framburður Unnars í meginatriðum sá sami.

Sögðu Lárus hafa hótað sér

Gestur á Kaffi Kósý þetta kvöld, köllum hann Albert, sagði í dómsal að Unnar hefði komið til sín umrætt kvöld og sagt Lárus hafa kýlt sig. Í kjölfarið hafi Haukur komið út af snyrtingunni og sagt sömu sögu. Hann hafi hvatt þá til að leggja fram kæru á hendur Lárusi. Lárus hafi heyrt af því, brugðist illa við, tekið hann taki og hótað honum.

Annar gestur þetta kvöld sagði Lárus hafa viðurkennt fyrir sér að hafa kýlt Unnar. Þá hafi Lárus bæði hótað sér og Alberti þetta kvöld vegna málsins.

Héraðsdómur Austurlands.Vísir/Pjetur
Bjarni sagðist ekkert hafa séð

Lögreglumaður á vettvangi staðfesti að Albert hefði sagt sér frá hótunum Lárusar í sinn garð umrætt kvöld. Þá hafi gengið afar illa að fá Lárus til skýrslutöku. Lárus hafi svo sjálfur afhent lögreglu Facebook-samskiptin í janúar 2014.

Þá sagðist lögreglumaðurinn hafa rætt við Bjarna umrætt kvöld. Bjarni hafi borið við ölvun og sagst ekki hafa orðið vitni að neinu.

Haukur virtist stressaður og hræddur

Yfirlögregluþjónn á Eskifirði sagðist ekki hafa orðið var við að Haukur hefði verið undir áhrifum þegar hann gaf skýrslu þann 7. október. Hann hafi hins vegar virst hræddur og stressaður við að leggja fram kæru.

Fram kom að móðir Kjartan og eiginkona yfirlögregluþjónsins eru systur. Lögreglumaðurinn neitaði að hafa reynt að hafa áhrif á framburð Kjartans.

Benti ekki á Kjartan fyrr en seint og síðar meir

Í niðurstöðu Héraðsdóms Austurlands er atburðarásin rakin ítarlega. Kjartan hafi staðfastlega neitað sök frá upphafi málsins og bent á að Lárus væri hinn seki. Upphaflega beindist grunurinn að honum enda lagði Haukur fram kæru á hendur honum.

Í ítarlegri skýrslu til lögreglu hafi Haukur lýst því að Lárus hafi veitt sér eitt þungt hnefahögg beint á nefið svo fossblætt hafi úr því. Síðan hafi Kjartan sparkað tvívegis í mjöðmina á honum og maga. Lítið hafi þó sést á honum vegna sparkanna. Kjartan var aðeins yfirheyrður sem vitni allt þar til við skýrslugjöf 14. mars 2014, um hálfu ári eftir líkamsárásina. Þá var hann orðinn að sakborningi í ljósi þess að Haukur og Lárus breyttu framburði sínum.

Fyrir dómi sagði Haukur að Kjartan hefði sparkað í andlit sitt umrætt skipti og þannig valdið honum nefbroti. Hann kannaðist ekkert við að Kjartan hefði slegið sig. Hins vegar nefndi Haukur ekki að spörk Kjartans hefðu valdið nefbrotinu fyrr en við þriðju skýrslutöku þann 17. maí 2014 eða átta mánuðum eftir árásina.

Frá Reyðarfirði.Vísir/Pjetur
Sagði aldrei að einhver annar væri ábyrgur

Þegar Haukur dró kæru sína á hendur Lárusi til baka vék hann ekki einu orði að hann hefði haft Lárus fyrir rangri sök eða að einhver annar væri ábyrgur. Það vekur hins vegar athygli dómara að lögreglan sá ekki ástæðu til að yfirheyra Hauk á nýjan leik heldur halda rannsókn áfram byggða á framburði Lárusar og vitnisins Bjarna.

Í ljós þess að Haukur var í óreglu og hve miklum breytingum framburður hans tók áleit dómurinn framburð hans svo ótraustan að vart yrði við hann stuðst.

Varðandi framburð Lárusar og Bjarna sögðu þeir báðir fyrir dómi að Kjartan hefði sparkað í andlit Hauks. Ekki var þó samræmi í því hve mörg spörkin voru. Hvorugur sagði fyrir dómi að Kjartan hefði kýlt Hauk í andlitið sem Haukur var þó ákærður fyrir. Þegar þeir voru minntir á það af dómara sagðist Lárus muna eftir því en Bjarni sagðist aðeins muna það óljóst.

Dró taum Lárusar

Dómurinn gerði sérstaka athugasemd við framburð Bjarna að hann væri góður kunningi Lárusar. Hann hefði ekki gefið skýrslu fyrr en Lárus benti á hann. Framburður hans fyrir dómi benti líka til þess að hann drægi frekar taum Lárusar en Hauks. Meðal þess sem ekki kom heim og saman í framburði þeirra Bjarna og Lárusar var að Bjarni sagði þá ekki hafa rætt saman áður en Bjarni gaf skýrslu. Lárus viðurkenndi hins vegar að þeir hefðu rætt saman.

Sömuleiðis reyndi Bjarni að fela þá staðreynd fyrir dómi að hann hefði líka rætt við Lárus daginn fyrir aðalmeðferðina. Þá gætti tortryggni Bjarna í garð Hauks og fjölskyldu. Að auki benti dómurinn á þá staðreynd að ekki þótti ástæða til að taka skýrslu af Bjarna upphaflega þar sem hann hefði á vettvangi umrætt kvöld sagst ekki hafa orðið vitni að árásinni.

Dómurinn setti einnig spurningamerki hve lítið Bjarni gat sagt frá smáatriðum umrætt kvöld. Það hafi skipt miklu máli enda hafi enginn annar en Lárus getað staðfest að Bjarni hafi verið inni á snyrtingunni umrætt kvöld.

Ekki komin fram sönnun

Í dómnum segir ennfremur að framburður hins þá 17 ára gamla Kjartans hafi verið stöðugur og ekki hrakinn með framburði vitna. Hann hafi verið bláedrú en aðrir undir mismiklum áhrifum áfengis.

Þó er ljóst að Kjartan hafi ekki greint frá allri vitneskju sinni um málið við fyrstu skýrslutöku. Hann hafi þó snúið aftur á lögreglustöðina samdægurs og gefið framburð sem beindi grun að Lárusi. Hann hefði þó ekki séð Lárus gera neitt.

Fyrir dómi hélt hann öðru fram og gaf þá skýringu að hann hefði óttast Lárus sem hefði hótað sér og systkinum sínum líkamsmeiðingum auk þess að kenna honum um slagsmálin. Dómurinn taldi skýringar Kjartnas ekki ótrúverðugar meðal annars í ljósi aldursmunar þeirra sem var fimmtán ár.

Þegar litið sé til þess að ekki liggur fyrir áreiðanlegur og trúverðugur framburður vitna mat dómurinn sem svo að ekki væri komin fram sönnun þess að Kjartan hefði sparkað og slegið í andlit Hauks eins og sagði í ákærunni. Var Kjartan því sýknaður vegna málsins.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×