Skoðun

Óþolinmæði kynslóðanna

Sólveig Jónasdóttir skrifar
Það er kvennafrí. Í dag leggja konur niður vinnu kl. 14:38 og ganga út. Kvennafríið er táknræn aðgerð sem konur beittu fyrst 1975 til að mótmæla launamun kynjanna. Þá voru mæður okkar í aðalhlutverki. Í dag leiðum við mæður okkur og dætur á baráttufund í sömu erindagjörðum. Kynslóðir kvenna leggja niður störf og ganga út til að mótmæla.

Fyrir tuttugu árum sat ég fyrirlestur um launamál kynjanna. Á fundinum spunnust heitar umræður, enda umræðuefnið eldfimt og stærsti hluti fundarfólks konur. Skyndilega stóð upp maður sem bað fundarfólk um að vera rólegt. Á launamuninum væru „eðlilegar“, sögulegar skýringar en samkvæmt útreikningum myndi launamunurinn hverfa á næstu tuttugu árum. Við skyldum vera þolinmóðar. Svo vildi til að ég þekkti manninn enda var hann á svipuðum aldri og ég. Ég gat þó ekki frekar en aðrar fundarkonur verið sammála honum. Ég gat ekki sætt mig við að hafa lægri laun en hann meira en helming starfsævi minnar til viðbótar. Þetta var árið 1996. Þá reiknaðist talnaspekingum Hagstofunnar til að konur hefðu 63% af launum karla á almennum vinnumarkaði. Í dag hafa konur samkvæmt sömu mælingum um 80% af launum karla. Launamunur karla og kvenna í opinberum störfum er engu skárri. Í nýlegri launakönnun SFR stéttarfélags mældist 20% munur á heildarlaunum karla og kvenna.

Ég hef verið 30 ár á vinnumarkaði. Launin mín hafa alla tíð verið um og yfir 20% lægri en karla í sambærilegum störfum. Árstekjur mínar hafa verið frá milljón til einni og hálfri milljón lægri en þeirra ALLAN minn starfsaldur. Munurinn hleypur á milljónum yfir starfsævina. Gleymum heldur ekki að lífeyrisgreiðslur taka mið af launatekjum svo við erum ekki lausar við ójafnréttið þrátt fyrir að vinnuævinni ljúki.

Ég geng út í dag kl. 14:38. Ég verð. Annars get ég ekki horft í augu dóttur minnar sem enn á eftir að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Hvernig get ég að útskýrt þetta fyrir henni? Skyldi einhver þarna úti enn vilja biðja mig um að vera þolinmóða?

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×