Lífið

Óþarfi að eyða formúu fjár fyrir árshátíðina

Guðný Hrönn skrifar
Ellen Loftsdóttir og Þórunn Antonía.
Ellen Loftsdóttir og Þórunn Antonía. Vísir/Eyþór
Söngkonan Þórunn Antonía Magnúsdóttir er mikill tískuunnandi og þykir gaman að klæða sig upp, sérstaklega þegar mikið liggur við. Í tilefni þess að árshátíðir eru framundan leituðum við á náðir stílistans Ellenar Loftsdóttur til að dressa Þórunni upp fyrir fínt tilefni án þess að eyða fúlgu fjár.

„Ég hef alltaf verið veik fyrir glæsilegum kjólum, samfestingum og skarti og hef eiginlega safnað samfestingum í gegnum tíðina. Ef ég hefði fæðst sem karlmaður væri ég 100% dragdrottning, sumar flíkur eru svo rosalegar að ég veit ekki hvenær ég hef tilefni til að nota þær en það hefur nýst í eitthvað „poppstjörnu lúkk“ eða einmitt á árshátíðar. Það er bara svo gaman að klæða sig upp! Ef ég mætti ráða væri ég alla daga eins og Michelle Pfieffer til fara, mínus náttúrulega Tony Montana, vélbyssu og kókaínstemmninguna,“ segir Þórunn spurð út í sinn stíl.

Þórunn er ekki viss hvort hún fari á einhverja árshátíð þetta árið en hún ætlar að nýta öll miðvikudagskvöld sem eru fram undan til að klæða sig almennilega upp. „Ég mun nefnilega vera með vikuleg kareoki-kvöld á Sæta Svíninu ásamt Dj Dóru Júlíu öll miðvikudagskvöld. Þar verður húmor og glamúr í fatavali í fyrirrúmi. Ég lét Selmu Ragnarsdóttur nýlega sérsauma á mig pallíettusamfestinga og mér líður jafn gordjöss og Páli óskari í þeim,“ segir Þórunn sem er veik fyrir pallíettum og perlum.

Þórunn verslar fötin sín víða, meðal annars á nytjamörkuðum. „En svo uppgötvaði ég nýlega ASOS sem er stórhættuleg vefverslun, en á Íslandi klikka búðirnar Topshop og Zara seint. En svo er Galvan með trylltustu tilefnis- og árshátíðarkjóla en kosta aðeins meira, sömuleiðis íslenska merkið Aoc edit. Svo er málið að vera fordómalaus á búðarölti þú veist aldrei hvar gullmolar leynast.“



Hefur tileinkað sér nýjan hugsunarhátt

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 fá áhorfendur að fylgjast með Þórunni Antoníu og stílistanum Elleni Loftsdóttur fara yfir það hvernig má poppa upp gamla flík á einfaldan hátt, m.a. með stórum eyrnalokkum. Ellen minnir fólk á að það er óþarfi að eyða formúu til að líta vel út þegar mikið liggur við.

Ellen Loftsdóttir segir rétta skartið og skóna geta lífgað upp á kjól sem nú þegar leynist í fataskápnum, það er óþarfi að stökkva út í búð og kaupa nýtt dress frá A-Ö.

„Það er ýmislegt hægt að gera til að poppa upp „gamla“ flík. Flottur jakki kemur manni til dæmis langt. Hálsmen eða eyrnalokkar er líka eitthvað sem getur gert mikið. Og síðast en ekki síst finnst mér flottir skór oft gera kraftaverk,“ útskýrir Ellen sem hefur undan farið reynt að tileinka sér nýjan hugsunarhátt þegar kemur að verslunarmynstri.

„Ég er eins og svo margar konur og á það til að finnst ég aldrei eiga neitt þegar mikið liggur við. En síðustu ár hef ég verið að reyna að temja mér nýjan hugsunarhátt í þessum efnum og þá sérstaklega út frá umhverfisþáttum. Ég reyni að nýta það sem ég á fyrir og reyni þá frekar að kaupa einhvern nýja aukahlut, þ.e.a.s. ef ég kaupi mér eitthvað nýtt. Það er gott að reyna að sjá það fallega í gömlum fötunum sínum, það laumast alltaf einhverjar gersemar þarna inn á milli sem vilja fá nýtt hlutverk.“

Áhorfendur Stöðvar 2 í kvöld fá að fylgjast með þegar Álfrún Pálsdóttir, ritstjóri Glamour, fór á fund Þórunnar og Ellenar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×