Skoðun

Óþarfa vesen þessi femínismi?

Eva H Baldursdóttir skrifar
Í ár er 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna. Ár eftir ár er Ísland í efsta sæti í alþjóðlegum samanburði um jafnréttismál.  Það er því gott að vera kona á Íslandi árið 2015 í erlendum samanburði.  Ég fæ iðulega athugasemdir á borð við: Er ennþá þörf að ræða þessi jafnréttismál? Því er mér bæði ljúft og skylt að taka stöðuna. Er jafnrétti á Íslandi? Konur eru í minnihluta í æðstu embættum hins opinbera og við stjórnun fyrirtækja. Frá því konur fengu kosningarrétt hefur aðeins ein kona gengt embætti forsætisráðherra en 26 karlar, þrjár konur verið borgarstjórar en 17 karlar og einn af okkar fimm forsetum var kona. Þá eru aðeins um 7% af æðstu stjórnendum fjármálakerfisins konur.

Stærstu skref í jafnréttismálum voru tekin seint á síðustu öld. Tilkoma dagvistunar barna og fæðingarorlofs brutu blað í að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaðnum. Sögulegir atburðir eins og kvennafrídagurinn 1975 vakti athygli á gríðarlegum launamun. Þá hafa önnur inngrip löggjafans skipt sköpum líkt og jafnréttislög sem m.a. mæla fyrir um 60/40 kynjaskiptingu í ráð og nefndir á vegum hins opinbera og nýleg löggjöf um 60/40 skiptingu í stjórnum stærri fyrirtækja hefur aukið umsvif kvenna í atvinnulífinu. Sú löggjöf var umdeild á sínum tíma, en hefur sannað ágæti sitt, enda var markaðurinn á hraða snigilsins við að rétta kynjahallann. Noregur reið á vaðið en Spánn, Belgía og Frakkland hafa fylgt í kjölfarið auk Íslands.

Fyrir baráttu þeirra kvenna sem rutt hafa brautina í jafnréttismálum er ég þakklát, ella hefði ég ekki haft tækifæri til að rækta mína hæfileika. Ég leyfi mér að fullyrða að ég er vonlaus húsmóðir. Með engan metnað fyrir þrifum, sultugerð, prjóni og bróderingum. Að sama skapi hæfileikasnauð, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, við að halda kjafti og vera sæt. Vegna þeirra kvenna sem á undan hafa farið hef ég haft val og tækifæri: að geta átt bæði fjölskyldu og feril. Útum allan heim njóta konur ekki þessara tækifæra.

En björninn er langt frá því að vera unninn. Þrátt fyrir að atvinnuþátttaka kvenna sé aðeins um 5% lægri en karla hér á landi eru konur enn með meirihluta verkefna heimilsins á sinni könnu, eins og fram kom í könnun Fréttatímans um daginn. Kynbundin launamunur lifir enn góðu lífi, kynbundið ofbeldi, mansal og klámvæðing grasserar, karlar taka orðið styttra fæðingarorlof sem hefur þau áhrif að konur eru meira heima o.s.frv. Þá hef ég margoft þurft að staldra við og beita gagnrýnni hugsun á mínar fyrirframgefnu hugmyndir og fordóma í tengslum við hlutverk eða stöðu kynjanna – ekki síst þegar kemur að körlum.

Það eru aðeins 100 ár síðan við fengum kosningarrétt. Í sögulegu samhengi er það afar stuttur tími. Kvenleiðtogar hér á landi eru fáir ef marka má upptalninguna hér að ofan. Við þurfum að taka okkur pláss og vera óhræddar. Okkar verkefni er því að halda áfram að bera kyndilinn og berjast fyrir því að konur hafi val og jöfn tækifæri óháð kyni – frelsi til að vera allskonar, líka breyskar og sundurleitar, og frelsi til að gera það sem við viljum og rækta okkar hæfileika, til jafns við karla. Femínisminn er því ekki aðeins þarfur, heldur nauðsynlegur, þrátt fyrir þann árangur sem hefur náðst hér á landi.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×