Skoðun

Ósýnilegt misrétti: fatlaðir nemendur í framhaldsskóla

Freyja Haraldsdóttir og Páll Valur Björnsson skrifar

Á vormánuðum lagði Björt framtíð fram spurningar til skriflegs svars til Mennta- og menningarmálaráðherra um stöðu fatlaðra nemenda í framhaldsskólum. Spurt var um  um hvort tölulegar upplýsingar lægu fyrir um hve margir fatlaðir nemendur, sem greindir eru með skerðingar í grunnskólum, lykju framhaldsskóla samanborið við ófatlaða nemendur. Jafnframt hvernig fjármagni sem er úthlutað til framhaldsskóla sé skipt milli fatlaðra nemenda á starfsbrautum vs. öðrum brautum og á grundvelli hvers fjármagninu er úthlutað. Að lokum vildum við vita hvernig stuðlað væri að samfellu í þjónustu við fatlaða framhaldsskólanemendur sem þurfa mikla aðstoð við athafnir daglegs lífs og spurðist fyrir um hvort samtal væri hafið um samþættingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar við þjónustu framhaldsskóla. Það verður að viðurkenna að svör ráðherrans ullu vonbrigðum sökum ónákvæmis. Í kjölfarið, nú fyrir nokkrum vikum, stóð Björt framtíð fyrir sérstakri umræðu um sama efnið þar sem ráðherra hélt áfram að valda vonbrigðum en ljóst var að hann skildi ekki umræðuna. Las hann nær einungis upp lagaákvæði og fjallaði um byltinguna sem hefði falist í starfsbrautum fyrir framhaldsskólanemendur, t.d. með þroskahömlun. Umræðan snérist hins vegar að þessu sinni um þá nemendur sem þurfa mikla aðstoð við daglegar athafnir en velja að sækja aðrar brautir.

 

Hindranir

Það er því miður svo að framhaldsskólanemendur sem þurfa mikla aðstoð við daglegar athafnir, einkum þeir sem vilja sækja nám utan starfs- eða sérnámsbrauta, lenda reglulega í verulegum vanda þar sem næg aðstoð fylgir þeim ekki til þess að geta sinnt námi, heimavinnu og félagslífi. Getur sá vandi að sjálfsögðu átt við um nemendur á starfs- og sérnámsbrautum en þar er þó almennt gert ráð fyrir aðstoð á skólatíma. Virðast þessir nemendur upplifa að þeir þurfi að velja sér skóla á grundvelli þess hver er reiðubúinn að veita nauðsynlega aðstoð en ekki á grundvelli áhugasviðs og námsárangri. Dæmi eru um að nemendum er beint eða óbeint hafnað því framhaldsskóli telur sig ekki geta veitt aðstoðina sem þörf er á. Auk þess er aðstoðin alla jafna bundin við skólabygginguna svo hún fylgir ekki heimanámi, sem er umtalsvert á þessu skólastigi, ásamt þátttöku í félagslífi. Sveitarfélögin koma alls ekki alltaf til móts við aðstoð utan skóla sem þó tengist skólanum með beinum hætti. Lög um framhaldsskóla, aðalnámsskrá framhaldsskóla og reglugerð um þjónustu við nemendur með sérþarfir í framhaldsskóla kveða á um að nemendur skuli fá nám við hæfi, námsaðstæður skuli vera aðlagaðar að þörfum þeirra og að öll vinna skuli miðast við að stefna um skóla án aðgreiningar nái fram að ganga, þ.e. að nemendum sé kennt saman þó þeir fari ólíkar leiðir.

 

Athyglisvert er þó að ýmsa fyrirvara má sjá í þessum skjölum og orðalag eins og ,,eins og kostur er” kemur víða við sem dregur úr þunga ákvæðana og þar með réttindum. Ennfremur að reglugerð um þjónustu við nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum fjallar lítið um nemendur með mikla þörf fyrir aðstoð og hneigist meira að námi í aðgreiningu. Gengur sú nálgun í berhögg við markmiðsákvæði íslenskrar löggjafar á þessu sviði og 24. grein Samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur undirritað, en því miður ekki fullgilt, en þar er kveðið á um að ,,Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Þau skulu koma á menntakerfi á öllum skólastigum án aðgreiningar” og ,,að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning innan almenna menntakerfisins til þessað greiða fyrir gagnlegri menntun þess.”

 

 

Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.

Afleiðingar

Fatlað fólk á langa sögu af aðskilnaði og útskúfun úr samfélaginu og hefur hér á landi búið við mjög skert lífsskilyrði og mannréttindi frá upphafi. Það birtist m.a. í félagslegslegri einangrun, fátækt og atvinnuleysi og fordómum sem dregur úr þátttöku og áhrifum hópsins o.þ.l. virkni og framlagi. Alþjóðlegar skýrslur, t.d. skýrsla Alþjóðaheilbrigðismálastofnunnar um stöðu fatlaðs fólks í heiminum sem kom út 2011 og skýrsla UNICEF um stöðu fatlaðra barna í heiminum sem kom út 2013 sýna svart á hvítu að tækifæri fatlaðs fólks til menntunar eru mjög skert, það hættir frekar í námi því þörfum þeirra er ekki mætt og líkur því síður framhaldsmenntun. Það hefur eðli málsins samkvæmt áhrif á atvinnutækifæri þess, fjárhagsstöðu og þ.a.l. félagslega virkni og heilsu, svo fátt eitt sé nefnd. Fatlaðar konur eru í sérstökum áhættuhópi hvað þetta varðar. Í báðum skýrslum kemur fram að skortur á tölulegum upplýsingum um fatlað fólk og stöðu þess á ýmsum sviðum samfélaga gerir það að verkum að hópurinn týnist og erfitt er að átta sig á raunverulegri stöðu mála. Það stuðlar að hættu á aðgerðarleysi stjórnvalda og aukinni mismunun. Það er því miður oft þannig að ef við sjáum ekki vandann höfum við tilhneigingu til þess að láta eins og hann sé ekki til staðar. 

Tækifærin eru mörg

Okkur ber að hafa miklar áhyggjur af þessu. Menntamálaráðherra telur að ekki sé hægt að safna upplýsingum um fatlaða nemendur því það brjóti persónuverndarlög. Vissulega er gagnaöflun vandmeðfarin en eins og í fjöldanum öllum af málaflokkum öflum við gagna um stöðu mála og því er augljóst að það að safna gögnum um fjölda nemenda sem hefja framhaldsskóla með fötlun og ljúka honum eru ekki persónuupplýsingar.  Tækifærin eru mörg og felast í því að samþætta þjónustu svo hún fylgi einstaklingnum en ekki húsum. Þannig má leysa ýmis vandamál innan og utan skóla sem hafa áhrif á námsmöguleika og draga úr aðgreiningu og annarri mismunun. Ein mikilvæg leið í því er að skoða hvernig notendastýrð persónuleg aðstoð getur fléttast inn í jöfnuna. Þar er ljóst að marka þarf skýrari stefnu, aðgerðar- og framkvæmdaráætlun, í samráði við fatlað fólk og framhaldsskólasamfélagið. Það þarf að gera  og á grundvelli upplýsinga um stöðu mála svo hægt sé að ákveða , hvernig fjarlægja eigium við   hindranir, hvar þarf að auka og eða breyta fjármagni og úrræðum svo gjörðir okkar séu í samræmi við orð okkar. Það er öllum ljóst að aðgengi að menntun er lykilatriði ef byggja á upp og viðhalda á samfélagi sem kennir sig við mannréttindi og jöfn tækifæri allra. Mismunun á grundvelli fötlunar samtvinnuð við mismunun á grundvelli kyngervis og tegund skerðinga gengur einfaldlega gegn alþjóðlegum mannréttindaskuldbyndingum og því nauðsynlegt að taka á því ábyrgð og vinna markvisst að umbótum. 




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×