Erlent

Öskuskýið veldur íbúum áhyggjum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Íbúar í Puerto Montt fylgjast með eldsumbrotunum.
Íbúar í Puerto Montt fylgjast með eldsumbrotunum. Vísir/EPA
Tvær miklar sprengingar urðu í eldfjallinu Calbuco í Síle, sú fyrri seinni part miðvikudags en sú seinni snemma í morgun. Með þessu hófst eldgos í fjallinu, sem síðast bærði á sér fyrir 43 árum.

Úr fjallinu hefur þeyst gríðarmikið magn af ösku, sem gæti tafið verulega fyrir flugumferð ásamt því að menga vatn og jarðveg í nágrenninu. Einnig má búast við því að andrúmsloftið verði lítt þolanlegt fólki með öndunarfærasjúkdóma.

Michelle Bastellet, forseti Síle, lýsti yfir neyðarástandi og byrjað var á því að flytja 4.000 manns burt frá byggðum í næsta nágrenni fjallsins.

Íbúar hafa verið hvattir til þess að halda sig inni við.

Neyðarráðstafanir hafa einnig verið gerðar í nágrannalandinu Argentínu.

Miklar eldingar hafa verið í gosinu.Nordicphotos/AFP
Alls eru 90 virk eldfjöll í Síle og eldgos nokkuð algeng. Einungis nokkrar vikur eru frá því síðast gaus þar, en þá hófst eldgos í fjallinu Villarica. Þá þurfti einnig að flytja þúsundir manna brott frá byggðum í nágrenninu.

Þrjú þessara eldfjalla þykja hættulegri en önnur og er Calbuco eitt þeirra.

Síðast gaus í Calbuco árið 1972 en það var lítið gos. Stærra gos kom úr því árið 1961, en alls hefur fjallið gosið tíu sinnum frá árinu 1837.

Í myndbandinu að neðan má sjá öskufall frá gosinu.

Cenizas En Junin De Los Andes #FotosChato

Posted by Fotos Chato on Wednesday, April 22, 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×