Erlent

Öskraði á nemanda í fyrsta bekk og reif heimanám hennar í tætlur

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Óhætt er að fullyrða að kennarinn hafi verið óánægður.
Óhætt er að fullyrða að kennarinn hafi verið óánægður.
„Það er ekkert sem reitir mig hraðar til reiði en þegar þú útskýrir ekki það sem stendur á verkefninu þínu,“ sést kennari kalla á nemanda í fyrsta bekk í myndbandi sem nýlega rataði inn á veraldarvefinn. Stúlkunni hafði mistekist að útskýra hvernig hún reiknaði stærðfræðidæmi með þeim afleiðingum að kennarinn öskraði á hana og reif verkefnið hennar í tætlur fyrir framan bekkinn.

Myndbandið var tekið upp árið 2014 af aðstoðarkennara konunnar og fyrst birt á vef The New York Times. Kennarinn í myndbandinu heitir Charlotte Dial og kennir í skóla í Cobble Hill í Brooklyn. Aðstoðarkennarinn, sem vildi halda nafni sínu leyndu, sendi myndbandið á dagblaðið eftir að hún hætti að starfa hjá skólanum. Hún sagði að framkoma sem þessi væri daglegt brauð innan skólans.

Áðurnefnd Dial hefur náð miklum árangri sem kennari og hlotið verðlaun vegna starfa sinna. Innan akademíunnar þar sem hún kennir eru verðandi kennarar sendir í læri til hennar svo þeir geti lært af vinnubrögðum hennar.

Stjórnendur skólans sendu Dial í leyfi á meðan málið var rannsakað en það leyfi entist aðeins í rúmlega viku. Hún hefur aftur hafið kennslu. Myndbandið af kennsluháttum hennar má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×