Viðskipti innlent

Óskilvirkur og fyrirsjáanlegur hlutabréfamarkaður

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Stefán B. Gunnlaugsson dósent við Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri hefur rannsakað íslenska hlutabréfamarkaðinn.  Nýlega birti hann rannsókn þar sem kann kannaði skilvirkni hans.  Niðurstöðurnar koma á óvart:

„Markaðurinn er óskilvirkur.  Með mjög einfaldri aðferðafræði, byggða á tæknigreiningu, sem sumir alþjóðlegir fjárfestar nota hefði verið hægt að ná margfalt betri ávöxtun en markaðurinn að meðaltali.  Á skilvirkum markaði væri það ómögulegt,“  segir Stefán.

Hann segir að markaðurinn hafi verið fyrirsjáanlegur. Ef ávöxtun var góð í síðasta mánuði voru miklar líkur á áframhaldi á góðri ávöxtun en ef ávöxtun var slæm væru verulegar líkur á vondri ávöxtun. Aðferðafræði sem byggir á skuldsetningu þar sem veðjað var á hækkanir og skortstöðu þar sem reynt er að hagnast á lækkunum hefði skilað frábærri ávöxtun.

„Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur einungis skilað rúmlega tvö prósent árlegri ávöxtun frá 1993 að meðaltali, en nokkrar einfaldar aðferðir hefðu skilað 20 til 36 prósent árlegri ávöxtun – þarna er geipilegur munur.“

Ástæður þessarar hegðunar marksins er smæð hans segir Stefán.

„Fáir stórir fjárfestar sem kaupa og selja undir svipuðum aðstæðum leiðir til þessarar hegðunar.“

Stefán er kunnugt um að sænskir fjárfestar beittu þessari aðferðafræði fyrir hrun og högnuðust á henni. Það er áhugavert að markaðurinn hefur ekkert hækkað síðustu tvö ár. Líkleg skýring á því telur Stefán vera minni kaupkraftur íslenskrar lífeyrissjóða. 

„Lífeyrissjóðirnir töpuðu nærri allri eign sinni í íslenskum hlutabréfum í hruninu. Þeir fóru að kaupa þau aftur fljótlega eftir hrun sem leiddi til hækkunar hlutabréfa. Þau kaup eru nú að mestu hætt og fjárfesta íslenskir lífeyrissjóðir nú frekar í erlendum hlutabréfum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×