Fótbolti

Óskar Örn með mikilvægt útivallarmark í jafntefli KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Örn Hauksson í leiknum í kvöld.
Óskar Örn Hauksson í leiknum í kvöld. Vísir/Luke Duffy
KR gerði 1-1 jafntefli á móti írska liðinu Cork City í kvöld í fyrri leik liðanna í forkeppni Evrópudeildar UEFA en leikurinn fór fram á Turner's Cross í Cork.

Óskar Örn Hauksson jafnaði metin eftir tæplega hálftíma leik og þannig urðu lokatölur leiksins. KR eru því í ágætum málum fyrir seinni leikinn á KR-vellinum.

KR-liðið byrjaði leikinn vel en það voru Írarnir sem skoruðu fyrsta markið. Alan Bennett, fyrirliði Cork City, skoraði markið eftir aukaspyrnu á 19. mínútu leiksins.

Írarnir voru þó bara yfir í níu mínútur því KR-liðið nýtti sér líka fast leikatriði og jafnaði metin á 28. mínútu.

Óskar Örn Hauksson hefur tekið upp á því að skora með skalla á þessu tímabil og gerði einn eitt skallamarkið í Cork í gær. Daninn Jacob Schoop tók þá hornspyrnu og Óskar Örn skoraði með föstum skalla.

Fleiri mörk litu ekki dagsins ljós og KR-ingar fara heim með jafntefli og mikilvægt útivallarmark.

Gary Martin kom inn á sem varamaður á 68. mínútu leiksins og spilaði sína fyrstu mínútur síðan að hann meiddist á móti Fylki 20. maí.

KR missti Gonzalo Balbi meiddan af velli strax á 31. mínútu leiksins og tók Aron Bjarki Jósepsson sæti hans í liðinu.

Leikmenn Cork City voru ekki sáttir með úrslitin og svo fauk í einn þeirra að hann réðst að eigin samherja og liðsfélagar hans þurfti að halda honum svo ekki færi illa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×