Innlent

Ósáttur við nýtt samkomulag

Formaður skipulagsráðs Reykjavíkur segir hag borgarinnar betur borgið ef íbúðarbyggð rísi í Vatnsmýrinni.
Formaður skipulagsráðs Reykjavíkur segir hag borgarinnar betur borgið ef íbúðarbyggð rísi í Vatnsmýrinni. Mynd/Stefán
Páll Hjaltason
Kristján Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, er ósáttur við þær áætlanir Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra og Jóns Gnarr borgarstjóra að hætta við byggingu nýrrar samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni.

„Ég harma það ef á að hætta við þessar framkvæmdir líka, ofan á allt annað,“ segir Kristján. „En það kemur svo sem ekki á óvart. Ég var búinn að hafa þetta lengi á tilfinningunni.“ Kristján segir að borgarfulltrúar í Reykjavík hafi sagt sér að undirbúningsframkvæmdir væru í ferli.

„Vorið fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í fyrra lögðum við okkur fram við að breyta ýmsu í áætlanagerð eftir óskum borgarinnar, og það gekk ekki eftir,“ segir hann. „Það má segja að þetta hafi ekki komið manni neitt á óvart, er varðar ákvarðanir hjá borginni.“

Kristján segist einnig hafa fyrirvara á því að ríkið sé að gefa eftir af landi sínu til borgarinnar.

„Af fenginni reynslu set ég, vegna þess að brennt barn forðast eldinn, fyrirvara um hvað verið sé að semja um,“ segir hann. „Að ríkið sé ekki að gefa af sínum eigum fyrir einhverja skammtímasamninga.“

Kristján undirstrikar þó að hann vilji halda Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni.

„Ég er alveg glerharður á því að völlurinn eigi hvergi annars staðar að vera en í Vatnsmýri,“ segir hann. „En það má svo sem gera einhverjar breytingar á honum.“

Páll Hjaltason, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, segir umræðu undanfarinna daga á misskilningi byggða. Aldrei hafi staðið til að halda flugvellinum í Vatnsmýri til frambúðar. Verið sé að vinna nýtt aðalskipulag fyrir allt Reykjavíkursvæðið sem gildi fram til ársins 2030 og verði það kynnt í haust.

„Í núgildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir því að fyrri brautin fari 2016 og sú seinni árið 2024. Það hefur ekkert breyst við vinnslu nýs aðalskipulags,“ segir Páll og bætir við að engar aðrar hugmyndir liggi fyrir um framtíðarveru flugvallarins, en Keflavík eða Hólmsheiði. Páll telur Keflavík ágætis kost, verði þar góðar tengingar.

„Við erum að skipuleggja framtíðarbyggð í Reykjavík,“ segir hann. „Ástæðan er ekki sú að okkur sé eitthvað illa við flugvöllinn, heldur sjáum við hag borgarinnar betur borgið með íbúðarbyggð í Vatnsmýrinni,“ segir Páll.

sunna@frettabladid.is

Kristján Möller


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×