Innlent

Ósáttir við „grímulausan áróður gegn trúleysi“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jóladagatalið sem Vantrúarmenn eru ósáttir við.
Jóladagatalið sem Vantrúarmenn eru ósáttir við.
Vantrú, sem hefur það að markmiði að veita mótvægi við boðun hindurvitna, gagnrýna harðlega jóladagatalið Jesús og Jósefína sem sýnt er á RÚV. Gagnrýnin kemur fram í pistli á vef Vantrúar. Jóladagatalið er annað tveggja sem RÚV er með til sýningar en auk þess er nýtt íslenskt jóladagatal, Jólasveinana, til sýninga.

Þáttaröðin Jesús og Jósefína er dönsk að uppruna en sýnd með íslenskri talsetningu á RÚV. Hún var framleidd árið 2003 og fjallar um hina tólf ára Jósefínu sem ferðast í tímavél til Nasaret árið tólf. Þar hittir hún Jesús sem barn og kynnist kristinni trú.

„Í gegnum tíðina hafa margir bent á að boðskapurinn í þáttunum sé töluvert vafasamur þegar kemur að trúleysi. Nú eru þessi þættir svo óbærilega leiðinlegir að fæstir foreldrar afbera að horfa á þetta með börnum sínum þannig að við höfum klippt til atriði úr einum þætti til að sýna hvernig fjallað er um hugmyndina um heim án guðstrúar,“ segir í pistlinum.

Í myndbroti sem Vantrúarmenn hafa tekið saman sést Jósefína spyrja móður sína og kennara spurninga um hvernig heimurinn væri ef ekki væri fyrir kristni.





„Maður gæti sagt að ef við værum heppin væru einhver önnur trúarbrögð sem hjálpuðu okkur að útskýra hvernig heimurinn virkar. Ef við værum óheppin værum við stödd í andlegu myrkri og tryðum ekki á neitt,“ segir móðirin við spurningu hennar.

Kennari svarar spurningunni: „Ef kristnin væri ekki til þá er ég hrædd um að við værum týnd,“ segir kennarinn og bætir við: „Þá held ég að hið illa hefði náð yfirhöndinni. Jesús kristur er sannleikurinn. Það er aðeins í gegnum hann sem við finnum frelsi.“

Vantrúarmenn segjast vita að peningar séu af skornum skammti hjá RÚV og erfitt að framleiða og kaupa gæðaefni.

„En það gengur ekki að "sjónvarp allra landsmanna" sýni barnaefni sem er grímulaus áróður gegn trúleysi.“

Uppfært klukkan 12:25

Samkvæmt upplýsingum frá RÚV er jóladagatalið sýnt í fyrsta skipti þar á bæ en hafi áður verið til sýninga á Stöð 2 í lokaðri dagskrá. Í pistli Vantrúar kemur fram að dagatalið sé til sýninga í þrjú þúsundasta skiptið hjá RÚV en það hefur verið leiðrétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×