Innlent

Ósátt við að þingsályktunartillaga vegna ESB verði ekki rædd fyrir páska

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Formenn stjórnarandstöðunnar vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB.
Formenn stjórnarandstöðunnar vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB. Vísir
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, kvaddi sér hljóðs við upphaf þingfundar í dag til að ræða fundarstjórn forseta, Einars K. Guðfinnssonar.

Er stjórnarandstaðan afar ósátt við það að þingsályktunartillaga formanna stjórnarandstöðuflokkanna um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu sé ekki á dagskrá þingsins fyrr en þann 14. apríl næstkomandi, að loknu þinghléi um páska.

Formaður Vinstri grænna gerði athugasemd við það að þingsályktunartillagan væri ekki á dagskrá og spurði hvort um væri að ræða enn eina tilraun til að halda þinginu frá umræðu um ESB.

Undir orð Katrínar tóku Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. Þá sagði Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar:

 

„Það er nú aldeilis fáheyrt að mál sem fjórir formenn stjórnarandstöðuflokkanna leggja fram fáist ekki rætt. Ég man ekki eftir því og að minnsta kosti ekki með mál af þessari stærðargráðu. Þar fyrir utan er hér heldur betur verið að undirstrika þá gjá sem orðið hefur milli þings og þjóðar þegar við blasir að þetta er mál sem að 80% þjóðarinnar vilja að nái fram að ganga. Þannig eru síðustu skoðanakannanir.“

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.Vísir/Vilhelm
Vill ekki að tillagan verði afgreidd á elleftu stundu

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kvaddi sér einnig hljóðs um fundarstjórn forseta og sagðist ánægður með að ekki ætti að gera lítið úr tillögu þingmannanna.

„Það er afskaplega mikilvægt að við gefum okkur góðan tíma til að ræða hana og að við afgreiðum hana ekki hér á elleftu stundu fyrir páska.“

Þá sagðist Guðlaugur ekki hrifinn af því sem hann hafði heyrt fleygt á göngum þingsins að takmarka ætti ræðutíma í umræðu um þingsályktunartillöguna.

„Maður hefði haldið að það vigtaði eitthvað hér inni á þingi að vera formaður í stjórnmálaflokki“

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, greindi svo frá því að á fundi þingflokksformanna í gær hafi þingflokksformann viljað koma tillögunni á dagskrá í dag með takmörkuðum ræðutíma í 1. umræðu.

„Ég er tilbúin til að ræða þessa tillögu hvar sem er og hvenær er og þarf hvorki meiri né minni tíma en Alþingi skammtar mér,“ sagði Ragnheiður.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að tillaga um takmarkaðan ræðutíma hefði verið sett fram til að liðka fyrir dagskrá en furðaði sig á því að tillagan kæmist ekki strax á dagskrá:

„Það er mjög merkilegt því maður hefði haldið að það vigtaði eitthvað hér inni á þingi að vera formaður í stjórnmálaflokki þegar lögð eru fram mál hér.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×