Innlent

Ósammála um breytingar á umdeildu húsi

sveinn arnarsson skrifar
Hafnarstræti 106.
Hafnarstræti 106. vísir/auðunn
Skipulagsnefndarfulltrúa á Akureyri og skipulagsstjóra bæjarins greinir á um hvort þær breytingar sem skipulagsstjóri samþykkti, án aðkomu nefndarinnar, á umdeildu húsi við göngugötuna á Akureyri, séu smávægilegar eða ekki.

Í nýju miðbæjarskipulagi er lagt til að húsið víki og það talið þungamiðja miðbæjarskipulagsins. Nefndarmenn bókuðu á síðasta skipulagsnefndarfundi að Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri hefði átt að láta skipulagsnefnd vita af umræddum breytingum á húsinu. Skrifuðu nefndarmenn undir greinargerð með bókun sinni.

„Undirritaðir nefndarmenn Skipulagsnefndar og áheyrnarfulltrúi telja breytingarnar þó alls ekki minni háttar heldur þvert á móti verulegar. Þær fela í sér mikla breytingu á notkun og útliti hússins. Þessar verulegu breytingar urðu nefndinni fyrst ljósar eftir að nefndarmenn sáu teikningar af framkvæmdinni í byrjun árs 2015.“

Skipulagsstjóri sagðist hafa fullnaðarheimild til að afgreiða öll byggingarmál.

„Til þess að koma í veg fyrir ágreining af svipuðum toga og um ræðir þurfa verklagsreglur fyrir skipulagsdeild að vera skýrar,“ segir í greinargerð skipulagsstjóra. „Að þessu sögðu mun undirritaður frá næstu mánaðamótum ekki samþykkja nýjar umsóknir um byggingarleyfi er varða breytingar á útliti eða formi mannvirkis nema að undangengnu samþykki skipulagsnefndar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×