Innlent

Öryrkjar sitja eftir

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Ellen Calmon
Ellen Calmon
Ellen Calmon formaður Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) segir að skuldaleiðréttingaraðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi nánast engin áhrif á kjör öryrkja þar sem langflestir þeirra búi í leiguhúsnæði.

Ellen segir að ÖBÍ hafi ritað Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra bréf í desember þar sem ráðherranum sé bent á að fæstir örorkulífeyrisþegar njóti lækkunar höfuðstóls húsnæðisskulda vegna forsendubrests né vegna skattfrelsis sérstaks viðbótarsparnaðar.

Til þess að þessi hópur fái eitthvað er ráðherranum bent á að veruleg hækkun húsaleigubóta geti komið til móts við þennan hóp að einhverju leyti.

Hámark húsaleigubóta einstaklings er nú 22 þúsund krónur á mánuði og ÖBÍ leggur til að bæturnar verði hækkaðar um 5.472 krónur á mánuði. Sú hækkun væri í samræmi við vísitölu. „Við höfum ekki fengið neitt formlegt svar frá ráðherranum enn,“ segir Ellen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×