Innlent

Öryrkjar krafðir um milljóna endurgreiðslur af TR

Ingvar Haraldsson skrifar
Sólveig segir erfitt að hjálpa þeim lífeyrisþegum sem fái háar eingreiðslur í árslok.
Sólveig segir erfitt að hjálpa þeim lífeyrisþegum sem fái háar eingreiðslur í árslok. vísir/pjetur
Hluti öryrkja skuldar Tryggingastofnun yfir milljón króna eftir endurútreikninga á greiðslum frá stofnuninni vegna tekjutengdra greiðslna árið 2014.

Sólveig Hjaltadóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Tryggingastofnunar, segir að slíkum tilfellum hafi fjölgað eftir að lögum var breytt sem höfðu í för með sér að lífeyrisþegum var gert að sækja rétt sinn hjá lífeyrissjóðum.

Þeir einstaklingar sem ekki hafi sótt um lífeyri áður hjá lífeyrissjóðum eigi uppsafnaðan rétt sem geti numið nokkrum milljónum króna. Upphæðin sé greidd í eingreiðslu og valdi skerðingu á þeim greiðslum sem fólk eigi rétt á hjá Tryggingastofnun. „Það er stundum verið að gera þetta fyrir áramótin hjá lífeyrissjóðum og það er mjög slæmt fyrir þá sem hafa verið að fá greiðslur hjá okkur,“ segir hún.

Sólveig segir erfitt að hjálpa þeim lífeyrisþegum sem fái slíkar eingreiðslur í árslok. „Eingreiðslurnar eru kannski að koma í nóvember, desember og þá erum við ekki í þessu mánaðarlega eftirliti því þá er árið að verða búið. Þetta er að valda óþægindum hjá fólki, því að svo reiknast þessar tekjur fyrir allt tekjuárið og valda því að það myndast krafa vegna ársins 2014,“ segir hún.

Sólveig segir erfitt fyrir stofnunina að hjálpa þeim sem fái eingreiðslur frá lífeyrissjóðum í árslok og hafi fram til þess tíma fengið greiðslur frá Tryggingastofnun.
Þriðjungur örorkulífeyrisþega og sautján prósent ellilífeyrisþega skulda ýmist eða eiga inneign sem nemur yfir hundrað þúsund krónum hjá Tryggingastofnun vegna ársins 2014. Sólveig segir einhver frávik eðlileg því allar lífeyrisgreiðslur séu tekjutengdar. Þá sé tilgangur endurútreikninganna að tryggja að allir fái réttar greiðslur að lokum. 

Tryggingastofnun geri jafnframt tillögu að tekjuáætlun fyrir lífeyrisþega í upphafi árs sem þeir séu hvattir til að uppfæra breytist tekjur þeirra. Eftirlit Tryggingastofnunar með þessum tekjuáætlunum hafi aukist til að reyna að koma í veg fyrir að endurgreiða þurfi háar upphæðir eftir endurútreikning. 

Sólveig bendir á að allir einstaklingar sem Tryggingastofnun eigi kröfu á hafi tólf mánuði til að endurgreiða kröfuna og hægt sé að semja við Tryggingastofnun um lengri greiðslufrest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×