Erlent

Öryggisvörður Macron ákærður

Samúel Karl Ólason skrifar
Benalla stendur hér við hlið Macron.
Benalla stendur hér við hlið Macron. Vísir/AP
Alexandre Benalla, Fyrrverandi öryggisvörður og aðstoðarmaður Emmanuel Macron, forseta Frakklands, hefur verið ákærður fyrir ofbeldi, ólöglegan burð lögreglumerkis og þrjá aðra glæpi. Myndband af honum birtist í fjölmiðlum í vikunni þar sem hann sást beita tvo mótmælendur ofbeldi klæddur í einkennisklæði lögreglumanns.

Myndbandið sem um ræðir var tekið í mótmælum sem fóru fram á verkalýðsdaginn þann 1. maí síðastliðinn. Benalla hafði beðið um frídag til þess að fylgjast með störfum lögreglu þann daginn, en hann starfaði áður sem öryggisvörður en þó aldrei innan lögreglunnar.

Í mótmælunum veittist Benalla að tveimur mótmælendum, karli og konu, og dró þau úr fjöldanum þar sem hann réðst á manninn, lamdi hann og stappaði á honum. Óeirðalögregla fylgdist með framgöngu Benalla án þess að skerast í leikinn, en Benalla var klæddur sem lögregluþjónn á mótmælunum.

Fjórir aðrir hafa einnig verið handteknir vegna málsins.



Sjá einnig: Emmanuel Macron sakaður um að hylma yfir ofbeldi öryggisvarðar síns



Benalla var sendur í tveggja vikna leyfi í kjölfar árásarinnar, en sneri aftur til starfa eftir það. Hann var settur í annarskonar störf, en hélt þó starfi sínu í innsta hring forsetans og var meðal annars í liðsrútunni ásamt forsetanum eftir sigurinn á heimsmeistaramótinu.

Eftir að myndbandið komst í dreifingu í fjölmiðlum reyndi Benalla, ásamt fleiri starfsmönnum forsetans, að komast yfir öryggismyndefni og stela því. Þrír lögreglumenn, þar á meðal tveir háttsettir innan stéttarinnar, voru sendir í leyfi eftir atvikið.

Hann var svo rekinn á föstudaginn.

Eftir ríkisstjórnarfund í dag sagði aðstoðarmaður Macron, samkvæmt France24 að forsetinn teldi athæfi Benalla „óásættanlegt“. Þá sagði hann að ekki hefði verið reynt að þagga málið niður og það myndi fara í gegnum dómskerfið án einhvers konar afskipta.



Guardian segir frá því að Benalla hafi ætlað að giftast unnustu sinni í gær en hætt hafi verið við brúðkaupið þar sem hann hafi verið í haldi lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×