Erlent

Öryggissveitir kallaðar út í Monróvíu

Randver Kári Randversson skrifar
Frá óeirðunum í West Point-hverfinu
Frá óeirðunum í West Point-hverfinu Vísir/AP
Fjórir létust þegar óttaslegnir íbúar West Point-hverfisins í Monróvíu, höfuðborg Líberíu þustu hundruðum saman út á götur og köstuðu grjóti að óeirðalögreglu. Hverfið hefur verið sett í sóttkví til að hindra útbreiðslu ebólu í borginni. Frá þessu er greint á vef Sky News.

Fólkið mótmælti aðgerðum yfirvalda, en hverfið hefur verið sett í sóttkví vegna ebólu-faraldursins í landinu. Íbúar hverfisins, sem eru um 50 þúsund geta hvorki komist til vinnu né keypt mat af þessum sökum. Óeirðalögreglan beitti táragasi og skaut aðvörunarskotum að mannfjöldanum.

West Point-hverfið er eitt fátækasta og þéttbýlasta hverfi Monróvíu, og er hreinlæti talið verulega ábótavant í hverfinu.

Alls hafa um 1350 manns látist í ebólu-faraldrinum, sem nú geisar í Vestur-Afríku, þar af 576 í Líberíu, en veiran hefur breiðst hvað hraðast út þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×