Erlent

Öryggisráðið krefst þess að sjúkrahús njóti verndar á stríðsvæðum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt harðorða ályktun þar sem þess er krafist að sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir á stríðsvæðum njóti verndar. Ályktunin var einróma samþykkt.

Ekki er vika liðin frá því að loftárásir voru gerðar á sjúkrahús í Aleppo í Sýrlandi þar sem minnst 50 létust, þar á meðal heilbrigðisstarfsfólk og börn. Öryggisráðið var kallað saman til fundar í kvöld vegna árásanna. Samþykkti Öryggisráðið ályktun þess efnis að sjúkrahús skuli njóta verndar og minnti á að árásir á heilbrigðisstofnanir flokkuðust undir stríðsglæpi.

Sjá einnig: Sjúkrahús í Sýrlandi skotmörk loftárása

Ekki er minnst sérstaklega á ákveðin ríki í ályktun Öryggisráðsins en sendiherra Bretlands hjá Sameinuðu þjóðunum segir að hún sendi sterk skilaboð um að ekki sé boðlegt að ráðast að sjúkrahúsum, sjúkrabílum, læknum og hjúkrunarfræðingum á stríðssvæðum.

Frá Aleppo eftir loftárásirnar í síðustu viku.Vísir/Getty
Ítrekað ráðist á sjúkrahús í Sýrlandi

Samtökin Læknar án landamæra segja að ráðist hafi verið 94 sinnum á sjúkrahús í Sýrlandi undanfarna sex mánuði. Auk þess hefur verið ráðist á heilbrigðisstofnanir í Jemen og undanfarin þrjú ár hefur ítrekað verið ráðist á sjúkrahús í átökunum í Suður-Súdan.

Sjá einnig: Einn Sýrlendingur deyr á hverjum 25 mínútum

Þetta er í fyrsta sinn sem Öryggisráðið ályktar um nauðsyn þess að vernda heilbrigðisstofnanir á stríðssvæðum en tillagan var sett fram í sameiningu af Egyptalandi, Japan, Spáni, Nýja Sjálandi og Úrugvæ. Öll þau ríki sem eiga fast sæti í Öryggisráðinu, að Kína undanskildu, taka nú þátt í átökunum í Sýrlandi með einum eða öðrum hætti.

Samkvæmt tillögunni er Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra SÞ, falið að leggja fram tillögur að því hvernig koma megi í veg fyrir árásir á heilbrigðisstofnanir og hvernig tryggja megi að þeir sem fremji slíkar árásir verði dregnir til ábyrgðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×