Erlent

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna: Rússar beittu neitunarvaldi gegn tillögu um vopnahlé í Aleppo

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Öryggisráðið hefur verið kallað saman.
Öryggisráðið hefur verið kallað saman. Mynd/Getty
Rússar og Kínverjar beittu í dag neitunarvaldi sínu gegn drögum að tillögu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um sjö daga vopnahlé í Aleppo, einni af stríðshrjáðustu borgum Sýrlands. BBC greinir frá.

Tillagan var lögð fram í ráðinu af Egyptalandi, Nýja-Sjálandi og Spáni í dag. Rússar sögðu að tillagan bryti gegn starfsreglum ráðsins þar sem ekki hefði verið mögulegt fyrir ríki að leggja fram breytingartillögur á drögunum eins og reglur ráðsins kveða á um að eigi að vera hægt með sólarhringsfyrirvara.

Bandaríkjamenn hafa gefið lítið fyrir þessar ástæður og segja Rússa vilja verja sýrlenska stjórnarherinn sem hefur undanfarna sólarhringa náð miklu landsvæði undir sig í borginni.

Ellefu ríki sem eiga sæti í Öryggisráðinu studdu tillöguna, en Venesúela kaus hinsvegar gegn henni og Angóla sat hjá. Hvorugt landanna hefur neitunarvald eins og ríkin fimm – Bandaríkin, Rússland, Kína, Frakkland og Bretland.

Fulltrúar Frakka og Breta í ráðinu voru mjög gagnrýnin á Rússa og sagði Matthew Rycroft fulltrúi Breta að Rússar héldu hundruði þúsunda saklausra borgara í gíslingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×