Erlent

Öryggi hert við Hvíta húsið

Bjarki Ármannsson skrifar
Ferðamenn við Hvíta húsið.
Ferðamenn við Hvíta húsið. Vísir/AFP
Leyniþjónusta Bandaríkjanna segir að öryggisviðbúnaður við Hvíta húsið hafi verið færður í aukana og að farið verði yfir verklagsreglur eftir að tveir aðilar reyndu að brjótast inn á innan við sólarhring.

BBC greinir frá. Alvarlegra tilfellið átti sér stað á föstudag en þá þurfti að rýma bygginguna að hluta eftir að maður vopnaður hníf komst yfir girðingu og inn í garð hússins. Hann var að lokum handtekinn en Barack Obama Bandaríkjaforseti var ekki á staðnum.

Annað atvik, að því er virðist ótengt, átti sér stað daginn eftir er maður keyrði upp að lokuðu hliði hússins og neitaði að fara. Sá var líka handtekinn, götum í grennd lokað og sprengiefna leitað í bílnum.

Julia Pierson, yfirmaður leyniþjónustunnar, skipaði í kjölfarið fyrir um endurskoðun öryggismála við Hvíta húsið. Obama forseti segist í tilkynningu enn bera „fullt traust“ til þjónustunnar, sem ber ábyrgð á öryggi háttsettra stjórnmálaleiðtoga Bandaríkjanna og erlendum þjóðarleiðtogum sem heimsækja landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×