Fótbolti

Öruggt hjá Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Lionel Messi skoraði eitt og lagði upp tvö til viðbótar í öruggum 5-0 útisigri á Levante í spænsku úrvalsdeildinni í dag. Barcelona er því enn með fullt hús stiga í spænsku úrvalsdeildinni að loknum fjórum umferðum.

Messi klikkaði reyndar á vítaspyrnu í leiknum en það kom ekki að sök. Neymar skoraði fyrsta markið en hann var þá þegar búinn að koma sér nokkrum sinnum í góð marktækifæri í leiknum.

Loukas Vyntra fékk svo að líta rauða spjaldið fyrir að brjóta á Messi rétt undir lok fyrri hálfleiks. Messi skoraði ekki úr vítaspyrnunni sem var dæmd í kjölfarið sem fyrr segir en Króatinn Ivan Rakitic skoraði gott mark stuttu síðar - hans fyrsta fyrir Börsunga.

Neymar fór meiddur af velli snemma í síðari hálfleik en Sandro Ramirez, varamaður hans, skoraði þriðja mark Börsunga áður en Pedro og Messi bættu við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×