Körfubolti

Öruggt að nýliðar vinna sinn fyrsta leik á tímabilinu á Stöð 2 Sport í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þrennuvélin Aaron Moss er mættur aftur.
Þrennuvélin Aaron Moss er mættur aftur. Vísir/Eyþór
Þriðja umferð Domino´s deildar karla í körfubolta fer af stað í kvöld en þá verða fjórir leikir á dagskrá.

Nýliðaslagur Hattar og Vals verður í beinni á Stöð 2 Sport en ljóst er að annað þessara liða vinnur sinn fyrsta leik á tímabilinu á Egilsstöðum í kvöld.

Höttur hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum á móti Stjörnunni og ÍR en geta huggað sig við það að bæði þau lið eru með fullt hús á toppnum.

Valsmenn hafa aftur á móti tapað á móti Keflavík og Tindastól sem töpuðu bæði hinum leik sínum í deildinni.

Höttur vann 1. deildina í fyrra en Valsmenn komust upp í gegnum úrslitakeppnina. Bæði lið eru lítið breytt ekki síst eftir að Hattarmenn fengu aftur til sín Bandaríkjamanninn Aaron Moss sem var með 23,5 stig, 12,3 fráköst og 8,9 stoðsendingar að meðaltali í 1. deildinni í fyrra. Valsmenn tefla líka fram sama Bandaríkjamanni og í fyrra.

Þrátt fyrir efsta sætið hafa Hattarmenn ástæðu til að hefna á móti Valsliðinu á Egilsstöðum í kvöld.

Höttur vann 21 af 24 leikjum sínum í 1. deildinni á síðasta tímabili eða alla leiki sína nema þessa þrjá sem liðið spilaði á móti Val.

Valsliðið vann allar þrjár innbyrðisviðureignir liðanna, fyrst 86-77 á Hlíðarenda í nóvember 2016, þá 76-68 á Egilsstöðum í febrúar 2017 og loks 118-84 á Hlíðarenda í mars.  

Leikurinn hefst klukkan 19.15, útsendingin fer í loftið 19.05 og Tómas Þór Þórðarson mun lýsa leiknum úr Brauð og co. Höllinni á Egilsstöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×