Körfubolti

Öruggt að íslenska körfuboltalandsliðið fer ekki til Lettlands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísland komst á EM í fyrsta sinn síðasta haust.
Ísland komst á EM í fyrsta sinn síðasta haust. Vísir/Anton
Íslenska körfuboltalandsliðið er á leiðinni í úrslitakeppni Evrópumótsins í fyrsta sinn á næsta ári en það verður dregið í riðla í Disneyland í París 8. desember næstkomandi.

Riðlakeppnin fer fram í fjórum löndum að þessu sinni en leikið verður í Berlín (Þýskalandi), Montpellier (Frakklandi), Riga (Lettlandi) og Zagreb (Krótatíu).

Íslenska landsliðið á hinsvegar ekki lengur möguleika á því að spila í riðlinum í Lettlandi en það kom í ljós eftir að raðað var í styrkleikaflokka í dag.

Ísland og Eistland eru saman í neðsta styrkleikaflokki og þar sem Eistar verða alltaf í riðli með Lettum þá getur íslenska landsliðið aðeins lent í riðlunum sem fara fram í Þýskalandi, Frakklandi eða Króatíu.

Þjóðirnar fjórar sem halda riðlana fengu að velja sér einn mótherja

en hann var valinn með það í huga að tryggja sem mest áhorf á leikina.

Úkraína átti að halda keppnina en FIBA Europe hætti við það vegna ástandsins í landinu. Fjórar þjóðir hlupu í skarðið með stuttum fyrirvara.

Lettar völdu nágranna sína frá Eistlandi, Frakkar völdu Finna, Króatar völdu nágranna sína frá Slóveníu og Þjóðverjar völdu Tyrki en mikið af Tyrkjum býr í Þýskalandi.

Þessar þjóðir verða því saman í riðli og við riðla þeirra bætast síðan fjórar aðrir þjóðir. Þær munu koma úr þeim styrkleikaflokkum sem eiga ekki þá þegar fulltrúa í viðkomandi riðli.


Tengdar fréttir

Martin og Elvar gætu misst af EM í körfubolta

Martin Hermannsson og Elvar Már Friðriksson, tveir af efnilegustu körfuboltamönnum landsins, eru á sínu fyrsta ári með LIU Brooklyn háskólanum en þeir gætu þurft að taka stóra ákvörðun næsta haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×