Sport

Öruggir sigrar hjá Hrafnhildi og Eygló Ósk | Myndir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hrafnhildur á fullri ferð.
Hrafnhildur á fullri ferð. vísir/ernir
Hrafnhildur Lúthersdóttir og Eygló Ósk Gústafsdóttir, okkar fremstu sundkonur, unnu örugga sigra í 100 metra bringusundi og 200 metra baksundi á Reykjavíkurleikunum í gær.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í Laugardalslauginni í gær og tók meðfylgjandi myndir.

Hrafnhildur varð hlutskörpust í 100 metra bringusundi en hún synti á tímanum 1:08,86 mínútum. Hin 17 ára Sunna Svanlaug Vilhjálmsdóttir varð önnur á 1:16,04.

Eygló Ósk kom langfyrst í bakkann í 200 metra baksundi. Hún synti á 2:12,88 sem er talsvert frá Íslandsmeti hennar (2:08,84). Hin færeyska Signhild Joensen lenti í 2. sæti á 2:20,09.

Á laugardaginn háði Eygló Ósk mikið einvígi við hina dönsku Mie Östergaard Nielsen í 100 metra baksundi. Nielsen er ríkjandi Evrópumeistari í greininni og hún vann nauman sigur á Eygló. Nielsen kom í bakkann á 1:01,65 en Eygló á 1:02,27.

Eygló vann aftur á móti sigur í 50 metra skriðsundi á laugardaginn og Hrafnhildur hrósaði sigri í 50 metra bringusundi. Sunna Svanlaug varð hlutskörpust í 200 metra bringusundi.

Í 50 metra baksundi karla börðust Daninn Magnus Jakupsson og Kristinn Þórarinsson um sigurinn. Svo fór að Jakupsson hafði betur. Hann synti á 25,90 sekúndum en Kristinn á 26,67. Í undanrásunum munaði hins vegar aðeins 30/100 úr sekúndu á þeim. Kristinn vann hins vegar sigur í 200 metra fjórsundi á tímanum 2:12,57 mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×