Erlent

Örtröð á útsölum á Svarta föstudegi

Atli Ísleifsson skrifar
Fyrri ár hefur Svarti föstudagur stundum leitt til ofbeldisverka þar sem fólk hefur verið skotið og orðið fyrir hnífstungum í leitinni að góðum afslætti.
Fyrri ár hefur Svarti föstudagur stundum leitt til ofbeldisverka þar sem fólk hefur verið skotið og orðið fyrir hnífstungum í leitinni að góðum afslætti. Vísir/AFP
Lögregla í Bretlandi hefur verið kölluð til í fjölda verslana í nótt og hafa tveir verið handteknir eftir að verslanir lokkuðu til sín viðskiptavini með vörum á miklum afslætti á hinum svokallaða „Svarta föstudegi“ eða „Black Friday“.

Mikill troðningur varð þegar verslanir opnuðu á miðnætti. Á myndböndum má sjá hvernig hvernig fólk svífst einskis, ýtir, öskrar og ryðst áfram til að komast yfir ódýrar vörur.

Lögregla í Manchester greinir frá því á Twitter-síðu sinni að tveir hafi verið handteknir vegna troðnings sem varð í Tesco-verslun í borginni.

Í frétt BBC segir að lögregla hafi lagt áherslu á að viðskiptavinir geti farið inn og yfirgefið verslanir á öruggan máta, og bætir við að enginn hafi enn sem komið er slasast í þeim örtröðum sem myndast hafa. Þá hafa fjöldi verslana þurft að loka í kjölfar troðnings.

Fyrri ár hefur Svarti föstudagur stundum leitt til ofbeldisverka þar sem fólk hefur verið skotið og orðið fyrir hnífstungum í leitinni að góðum afslætti. Þannig segir SVT frá því að maður hafi verið skotinn í Las Vegas og rændur nýkeyptu sjónvarpi sínu.

Svarti föstudagur er mesti verslunardagur ársins í Bandaríkjunum en verslanir bjóða þá upp á mikinn afslátt á föstudeginum eftir þakkagjörðarhátíðina. Margar verslanir opna þá mjög snemma dags og hafa opið langt fram á kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×