Erlent

Örþrifaráð Rússa virkuðu ekki sem skyldi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Óvissan er gífurleg í Rússlandi og veit fólk ekki hvað skal gera.
Óvissan er gífurleg í Rússlandi og veit fólk ekki hvað skal gera. vísir/ap
Rúblan, gjaldmiðill Rússa, hélt áfram að hríðfalla í verði og hefur hún fallið um tuttugu prósent í vikunni. Þegar verst lét fengust áttatíu rúblur fyrir dollarann en í upphafi árs fengust tæpar 33 rúblur fyrir dollarann. Þegar markaðir lokuðu fengust tæpar sjötíu rúblur fyrir dollarann. Ástæðan fyrir veikingunni er talin vera lækkun á heimsverði olíu.

Rússneski seðlabankinn greip til þess ráðs í fyrradag að hækka stýrivexti úr 10,5 prósentum upp í sautján prósent. Aðgerðin skilaði ekki tilætluðum árangri. Seðlabankinn hefur einnig varið stórum hluta af gjaldeyrisforða sínum til að stemma stigu við falli rúblunnar.

Erlend fyrirtæki fylgjast með ástandinu. Apple hefur til að mynda hætt netsölu á vörum sínum til landsins. Fyrir þremur vikum hækkaði fyrirtækið verð á iPhone 6 um 25 prósent en eftir að verðið er umreiknað í dollara hefur síminn engu að síður lækkað í verði.

Margir íbúar landsins hafa brugðið á það ráð að hamstra vörur áður en verð á þeim hækkar enn frekar. Þeirra á meðal er Elena, 36 ára stjórnandi fyrirtækis í Moskvu, en í síðustu viku keypti hún ríflega þrjátíu kíló af kjötvöru, tíu kíló af hveiti og mjöli auk fatnaðar og snyrtivara. Óvissan í landinu er gífurleg.

Óvíst er hvert næsta skref Vladimirs Pútín verður en líklegt þykir að Rússar muni grípa til þess ráðs að selja hluta gullforða síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×