Erlent

Örlög Dilmu Rousseff ráðast í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Dilma Rousseff tók við embætti forseta Brasilíu árið 2011.
Dilma Rousseff tók við embætti forseta Brasilíu árið 2011. Vísir/AFP
Öldungadeild brasilíska þingsins mun í dag greiða atkvæði um hvort Dilma Rousseff taki aftur við embætti forseta landsins eður ei.

Hún hefur sætt ákæru um embættisglöp og var tímabundið vikið úr embætti forseta í maí. Hún er sökuð um að hafa hagrætt fjárlögum landsins til að hylma yfir vaxandi tekjuhalla ríkisins.

Upphaflega stóð til að þingmenn myndu greiða atkvæði um framtíð Rousseff í gær en var ákveðið að fresta atkvæðagreiðslunni til dagsins í dag.

Kjósi tveir þriðju þingmanna, að minnsta kosti 54 af 81 þingmanni, með að fella Rousseff verður henni varanlega vikið úr embætti.

Verði Rousseff sakfelld mun Michel Temer, starfandi forseti, gegna embættinu út skipunartíma Rousseff, eða fram í desember 2018.

Rousseff hefur varið gjörðir sínar og sagst ekki hafa gerst brotleg við lög og sagt árásirnar sem beinast gegn sér vera tilraun til valdaráns.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×