Viðskipti innlent

Orkuveita Reykjavíkur hagnast um 3,3 milljarða

ingvar haraldsson skrifar
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur eru staðsettar við Bæjarháls 1.
Höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur eru staðsettar við Bæjarháls 1. mynd/róbert reynisson
Orkuveita Reykjavíkur hagnaðist um 3,3 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Orkuveitan segir mikinn árangur hafa náðst í fjár- og áhættustýringu í rekstri fyrirtækisins. Þá hafi „Planið“, áætlun um endurskipulagningu reksturs Orkuveitunnar sem sett var af stað árið 2011, gengið eftir og gott betur. Það hafi skilað sér í hærra eiginfjárhlutfalli, sem var 34,6 prósent í lok uppgjörstímabilsins, 31. mars 2015 samkvæmt tilkynningu frá Orkuveitunni.

Þó er bent á að afkoma Orkuveitunnar sé gjarna best á fyrsta fjórðungi árs auk þess að framkvæmdakostnaður sé líklega síður kominn fram vegna erfiðs tíðarfars í vetur og vor.

Rekstrartekjur Orkuveitunnar námu 11 milljörðum króna en rekstrargjöld námu 3,8 milljörðum. Því nam EBITDA 7,2 milljörðum. Afskriftir námu 2,4 milljörðum. Þá voru nettó fjármunatekjur neikvæðar um 808 milljónir króna. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 4 milljörðum.

Orkuveitan gefur ekki upp samanburð á afkomu milli ára vegna uppskiptingar á Orkuveitunni á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×