Fótbolti

Óreyndur þjálfari en með mikla reynslu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andriy Shevchenko.
Andriy Shevchenko. vísir/getty
Andriy Shevchenko var í sumar ráðinn nýr landsliðsþjálfari Úkraínu og hans fyrsta verk verður að taka á móti íslenska landsliðinu í undankeppni HM 2018.

Helgi Kolviðsson, nýr aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands, fylgdist vel með Úkraínu á EM í sumar og segir liðið gríðarlega sterkt þó svo að Úkraínumenn hafi tapað öllum sínum leikjum í Frakklandi og ekki náð að skora mark.

Með nýjum þjálfara koma nýjar áherslur og sagði Helgi á blaðamannafundi KSÍ í gær að mikill undirbúningur sé að baki hjá íslenska liðinu fyrir leikinn til að geta undirbúið leikmenn fyrir hvaða aðstæður sem er.

Helgi segir enn fremur að þó að Shevchenko hafi ekki mikla reynslu sem þjálfari komi það ekki að sök. „Hann er stjarnan í Úkraínu enda búinn að vinna alla titla sem hægt er sem leikmaður. Hann veit hvað býr í liðinu og með hans innkomu vilja þeir fá hugarfar sigurvegarans í leikmannahópinn,“ segir Helgi.

„Hann býr að mikilli reynslu frá leikmannsferli sínum enda hefur hann starfað með mörgum af bestu þjálfurum Evrópu á ferlinum. Hann er líka með stóran hóp í kringum sig í sínu starfsliði.“

Shevchenko verður fertugur í lok næsta mánaðar en hann spilaði með Dynamo Kiev, AC Milan og Chelsea á tæplega tveggja áratuga ferli, auk þess að eiga að baki 111 landsleiki með Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×