Lífið

Orðinn stöðumælavörður

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Jón Þór tekur sig vel út í nýja starfinu og sést hér að störfum. Ökumaður þessa bíls hafði greinilega gleymt sér.
Jón Þór tekur sig vel út í nýja starfinu og sést hér að störfum. Ökumaður þessa bíls hafði greinilega gleymt sér. Vísir/Vilhelm
„Það er yndislegt að labba út í ferska loftinu og hafa enga ábyrgð nema framfylgja einni lagagrein, 108. grein umferðarlaga,“ segir Jón Þór Ólafsson pírati sem er orðinn stöðumælavörður.

Fyrsti dagurinn í nýja starfinu var í gær. Hann hætti á þingi í haust til þess að snúa aftur til fyrri starfa við malbik en hannstarfaði lengi á malbikunarstöð áður en hann tók sæti á Alþingi fyrir Pírata. Þótti það sæta nokkrum tíðindum enda mælast Píratar stærstir allra flokka samkvæmt skoðanakönnunum.

Jón Þór er ánægður í nýja starfinu sem stöðumælavörður.Vísir/Vilhelm
Jón Þór fann sig hins vegar ekki í þingstörfunum. Malbiksvinnan er hins vegar árstíðabundinn og ákvað Jón Þór því að sækja um stöðumælavörslu og ætlar að vinna við hana þangað til malbikunartíðin hefst í vor. Síðan Jón Þór hætti á þingi hefur hann þó ekki setið auðum höndum. Hann tók saman leikreglurAlþingis og er kominn langt með þá vinnu auk þess sem hann hefur unnið stjörnugjöf um fjóra alþjóðlega viðurkennda stjórnarhætti sem setja hagsmuni sjóðsfélaga lífeyrissjóðanna í forgang. Nú er sú vinna á enda og hlakkar hann til að starfa sem stöðumælavörður.

„Ég fór að hugsa um hvað ég gæti gert sem ég gæti gripið í inn á milli og sagði þeim að ég færi í malbikið aftur, þetta væritímabundið. Ég sagði þeim að ég teldi starfið henta mér vel og þeir vildu ráða mig,“ segir Jón Þór og vísar þar í Bílastæðasjóð.

Fyrsti dagurinn í vinnunni gekk vel enda blíðskapaveður í Reykjavík í gær. Jón Þór var búinn að skrifa út nokkrar stöðumælasektir þegar Fréttablaðið heyrði í honum um miðjan dag í gær. „Ég er búinn að læra það að við sektum ekki, við leggjum á gjald. Það er bara lögreglan sem sektar,“ segir hann hlæjandi.

Hann segir starfið leggjast vel í sig og vissulega sé það ólíkt þingstörfunum.

„Mér finnst gaman að flandra um göturnar og drekka í mig borgarmyndina. Ég held þetta verði gaman og henti mér vel.“ Jón Þór hefur ekki miklar áhyggjur af kuldanum en kannski örlitlar áhyggjur af hvort hann þoli allt þetta labb sem fylgir því að vera stöðumælavörður. „Ég er alltaf svo vel klæddur en það er spurning hvort lappirnar þoli þetta. Andinn er sterkur en holdið gæti verið veikt.“ 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×