Fótbolti

Orðið alveg klárt að Neymar verður áfram í París

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Neymar fer ekki fet.
Neymar fer ekki fet. Vísir/Getty
Brasilíski landsliðsmaðurinn Neymar batt í gærkvöldi endi á eilífar vangaveltur um framtíð sína og þrálátan orðróm þess efnis að hann er á leið til Real Madrid.

Neymar fullyrti á góðgerðarkvöldi sem að hann stóð fyrir að hann verður áfram í París og mun spila fyrir Paris Saint-Germain á næstu leiktíð.

„Ég verð hér áfram. Ég verð áfram í París. Ég er samningsbundinn og mest af þessu félagaskiptatali fer fram í fjölmiðlum,“ sagði Neymar en Sky Sports greinir frá.

„Það vita allir markmið mín og ástæðuna fyrir því að ég fór til Parísar. Ég vil árangri með þessu félagi og vonandi verður næsta tímabil frábært,“ sagði hann.

Neymar skoraði 19 mörk fyrir PSG á síðustu leiktíð og lagði upp önnur þrettán er liðið vann deild, bikar og deildabikar í Frakklandi. Það féll aftur á móti úr leik í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Real Madrid vill ólmt fá Neymar í sínar raðir, sérstaklega þar sem að það er búið að missa Cristiano Ronaldo til Juventus. Madrídarrisanum vantar stórt nafn.

„Vegna þessa þráláta orðróms um möguleg kaup Real Madrid á Neymari vill félagið koma því á framfæri að það ætlar ekki að gera tilboð í leikmanninn,“ sagði Real Madrid í yfirlýsingu í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×