Innlent

Orðalag á vefsíðu gjaldþrotaskipti.is talið rangt og villandi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Guðmundur Ásgeirsson
Guðmundur Ásgeirsson VÍSIR/VALLI
„Þeir virðast hafa dregið þetta til baka hálfa leið í stað þess að breyta villandi og röngu orðalagi alveg,“ segir Guðmundur Ásgeirsson, lögfræðinemi og erindreki hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, um orðalag á vefsíðunni gjaldþrotaskipti.is. Síðan auglýsir meðal annars aðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

Í kjölfar frumkvæðisathugunar Neytendastofu í desember var orðalagi á síðunni breytt. Athugunin var gerð vegna kvörtunar frá Hagsmunasamtökum heimilanna sem sneri að því að gefnar væru upp rangar og villandi upplýsingar.

Fullyrt var að um síðustu áramót myndu lög um fyrningarfrest við gjaldþrot breytast, en fyrir þeirri fullyrðingu var enginn fótur þar sem forsætisráðherra tók það fram í stefnuræðu sinni að fyrningarfrestur myndi áfram vera tvö ár.

Guðmundur segir að þrátt fyrir breytt orðalag sé greinilega enn verið að reyna að kveikja þá hugmynd að stuttur fyrningarfrestur muni aðeins standa til boða tímabundið og því sé skammur tími til að nýta styttan frestinn.

„Þetta er ekki rétt. Þeir nota þetta orðalag bara sem tæki til að veiða til sín viðskipti,“ segir Guðmundur og bætir við að þeir kveiki þá hugmynd hjá fólki í fjárhagserfiðleikum að það sé tímapressa. „Þannig spila þeir með örvæntingafullt fólk sem á undir högg að sækja.“

Samkvæmt upplýsingum frá Neytendastofu verður metið hvort tilefni sé til athugunar að nýju vegna viðskiptahátta vefsíðunnar sem er í eigu Sigma bókhalds sf. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×