Skoðun

Orð til sportveiðimanna og -kvenna

Guðmundur Valur Stefánsson skrifar
Ég er sportveiðimaður og á marga kunningja og vini sem eru það líka. Margir í þeim hópi hafa sagt mér að þeir hafi veitt eldislaxa í ýmsum frægum laxveiðiám um land allt og telja undantekningarlaust að um strokulaxa úr eldiskvíum hafi verið að ræða. Margir hafa tekið myndir af löxunum og sent þær ásamt hreisturssýni til greiningar hjá Veiðimálastofnun sem nú er hluti Hafrannsóknastofnunar. Þegar ég hef spurt hver hafi orðið niðurstaða greininganna, þá kemur alltaf í ljós að viðkomandi hafi enn ekki borist niðurstaða. Menn gefa sér að „þögn sé sama og samþykki“ en svo er ekki í þessu tilviki.

Mismunandi stofnar

Til að útskýra málið er vert að benda lesendum á að hér á landi er starfrækt tvenns konar laxeldi. Annars vegar eru alin laxaseiði og sjógönguseiði af sk. Sagastofni sem nú er í umsjá og eigu Stofnfisks hf. Sagastofninn er afkomandi tveggja eldisstofna sem fluttir voru sem hrogn til landsins frá Noregi. Annars vegar var um að ræða stofn sem heitir Mowi sem ÍSNÓ í Kelduhverfi fékk 1984 og hins vegar stofninn Bolaks sem fór til Íslandslax í Grindavík í tveimur sendingum, 1986 og 1987. Hann er nú alinn í nokkrum landstöðvum áður en hann er settur í eldiskvíar á Vestfjörðum og sunnanverðum Austfjörðum til áframeldis. Megnið flytur Stofnfiskur þó út til áframeldis í öðrum löndum víða um heim.

Hins vegar eru líka alin laxaseiði og sjógönguseiði af íslenskum villtum stofnum í nokkrum landstöðvum til sleppingar í laxveiðiár um allt land sem veiðiréttareigendur standa fyrir og eiga. Fagfólk og þ.m.t. sportveiðifólk þekkir eldislax t.d. á því að á sumum þeirra eru uggarnir skertir og einnig sporður og tálknlok. Einstaka lax getur svo líka haft einkenni beinaskerðingar (kripplingseinkenni). Þetta á jafnt við um báða eldisstofnana. Þessi einkenni verða nánast alfarið til í landstöðvunum en sárin ágerast í mismunandi mæli eftir sleppingu í kvíar eða í á.

Sýni ekki greind

Vegna svara vina minna og kunningja í sportveiðinni og forvitni á að vita hvað hefði komið út úr greiningum Veiðimálastofnunar á hinum meintu strokulöxum fór ég og kannaði málið nánar með fyrirspurnum til stofnunarinnar. Fékk ég þau svör að ekki væri til fjármagn til að framkvæma allar greiningar sem stofnuninni bærust. Við nánari athugun kom í ljós að greind hafa verið sýni úr tveimur tilvikum, í báðum tilvikum vegna þess að sýnin og staðsetning veiðinnar gaf rökstuddan grun um að um eldislax væri að ræða úr kvíum. Var annars vegar um að ræða sleppilax úr sláturkví í Norðfirði 2003/2004 og hins vegar í Patreksfirði 2013/2014 og var í báðum tilvikum um að ræða lax af Sagastofni.

Þrjár vel unnar skýrslur eru til um þessar tvær slysasleppingar sem unnar voru af sérfræðingum Veiðimálastofnunar. Málið varð strax að fréttaefni sem fór um alla fjölmiðla eins og eldur í sinu svo vart fór fram hjá nokkrum manni. Af öðrum sýnagreiningum segir fátt. Sem fagmaður á þessu sviði tel ég litlar líkur á því að sérfræðingar Veiðimálastofnunar þekki ekki muninn á þeim mismunandi laxastofnum sem hér eru ræktaðir. Vitað er að eldislaxar veiðiréttareigenda eru í þessum ám í miklum mæli og það ætti engum að koma á óvart að það veiðist einn og einn lax með einkennum eldislaxa í þessum ám.

Eldislax veiðiréttarhafa

Það er mikilvægt að Hafrannsóknastofnun greini alla laxa sem veiðimenn hafa grun um að sé eldislax, óháð uppruna. Eldislax af Sagastofni hefur aldrei svo vitað sé veiðst í íslenskum ám utan Vestfjarða og sunnanverðra Austfjarða. Um það vitna opinberar upplýsingar. Að mínu mati er augljóst að þegar sportveiðimenn fullyrða að eldislax frá sjókvíafyrirtækjunum veiðist „í ám um allt land“ sé um að ræða eldislax frá sjálfum veiðiréttarhöfunum sem þeir sleppa í stórum stíl, beint í árnar. Það er mikilvægt að fjallað sé um þessi mál eins og þau eru í stað þess að leitast sífellt við að hengja bakara fyrir smið. Einhverra hluta vegna virðist það þó ekki forgangsmál að veita almenningi upplýsingar um eldislax veiðiréttarhafa í íslenskum laxveiðiánum.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×