Viðskipti innlent

Opna lúxusíbúðahótel á tuttugustu hæð

Ingvar Haraldsson skrifar
Íbúðirnar verða á efstu hæð Turnsins sem verið hefur auð frá opnun húsins.
Íbúðirnar verða á efstu hæð Turnsins sem verið hefur auð frá opnun húsins.
Opna á nýtt hótel, Tower Suites Reykjavík, á tuttugustu sem er jafnframt efsta hæð Turnsins við Höfðatorg næsta vor. Þar verða átta lúxusíbúðir, 43 til 64 fermetrar hver.

Að verkefninu standa Sigmar Vilhjálmsson, Jóhannes Ásbjörnsson og Snorri Marteinsson sem saman hafa rekið Hamborgarafabrikkuna auk Jóhannesar Stefánssonar, eiganda Múlakaffis. Um er að ræða sama hóp og tók við rekstri Keiluhallarinnar fyrr á árinu.

„Það verður hægt að leigja stök herbergi og eins verður möguleiki á að sameina fleiri en eina og fleiri en tvær íbúðir og leigja þannig stærra gistipláss,“ segir Jóhannes Ásbjörnsson.

Framkvæmdir eru nýhafnar. „Það er rétt búið að opna verkfæratöskuna, hæðin er í sjálfu sér fokheld eins og staðan er núna. Hins vegar er hönnunin langt á veg komin.“ Ásgeir Ásgeirsson arkitekt hannar íbúðirnar.

Hæðin hefur verið auð frá því Turninn var tekinn í notkun. Jóhannes segir þá lengi hafa haft augastað á hæðinni eða allt frá því þeir fluttu með Hamborgarafabrikkuna inn í Turninn fyrir fimm árum.

„Nú eru kjöraðstæður til að hrinda henni í framkvæmd, enda mikill vöxtur í ferðatengdri þjónustu hérlendis. Svo er óneitanlega gaman að loka hringnum á efstu hæðinni eftir að hafa verið á jarðhæðinni með Fabrikkuna í fimm ár,” segir hann.

Jóhannes segir búið sé að bæði sé búið að ganga frá leigusamningi við Fast-1, eiganda Turnsins, og fjármögnun verkefnisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×