Skoðun

Opinn landbúnaður

Sindri Sigurgeirsson skrifar
Íslenskur landbúnaður stendur á tímamótum. Eftirspurn eftir landbúnaðarvörum hefur aukist bæði heima og erlendis. Það skýrist meðal annars af stórauknum fjölda ferðamanna og vaxandi áhuga erlendis fyrir íslenskum landbúnaðarvörum. Samhliða aukinni eftirspurn á sér stað mikil vöruþróun í greininni. Auknar kröfur eru um gæði og upplýsingar um uppruna þeirra matvæla sem fólk kaupir.

Bændur telja afar mikilvægt að neytendur geti auðveldlega nálgast upprunaupplýsingar um þá vöru sem í boði er. Þetta gleymist oft í umræðu um innflutning á búvörum. Innflutta framleiðslu vantar oft upprunamerkingar, upplýsingar um lyfjanotkun, aðbúnað eða aðra framleiðsluhætti. Íslensk löggjöf er ein sú framsæknasta sem um getur í þessum efnum. Neytendur geta gengið að því vísu að íslensk framleiðsla uppfyllir ströngustu skilyrði. Við viljum alls ekki slá af þessum kröfum en við verðum að gæta okkar á því að oft á tíðum segir verðið ekki alla söguna. Það er lykilatriði að neytendur geti verið vissir um að þeir eigi val um ferska vöru með skýrum uppruna og sem ekki hefur þurft að flytja um langan veg. Við eigum að sameinast um að framleiða meira innanlands til að mæta aukinni eftirspurn og auka hagkvæmni.

Vegna þeirra áskorana sem íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir vilja bændur gera sérstakt átak í því að opna landbúnaðinn. Tónninn verður sleginn í Hörpunni um helgina þar sem almenningi gefst kostur á að gæða sér á innlendri matvælaframleiðslu. Þessa helgi breytist tónlistarhöllin í matarhöll og eru allir velkomnir að gæða sér á því besta sem í boði er beint frá bónda. Samhliða verður Búnaðarþing 2015 sett. Þá ætlum við að bjóða almenning velkominn í sveitir landsins í sumar til að kynnast íslenskum landbúnaði frá fyrstu hendi. Um allt land eru fjölbreytt bú opin almenningi undir merkjum Opins landbúnaðar. Þetta gerum við því við erum stolt af okkar matvælaframleiðslu en við erum líka opin fyrir hugmyndum um hvernig megi frekar þróa landbúnaðinn til þess að ná enn betri árangri. Verið velkomin í Hörpu um helgina.




Skoðun

Sjá meira


×