Skoðun

Opið bréf til ofbeldismanns

Sigþrúður Guðmundsdóttir skrifar
Þegar ég tala um ofbeldi tala ég oftast við konuna sem þú beitir ofbeldi. Eða við foreldra hennar og vini eða fagfólk og stjórnvöld um ofbeldið sem þú beitir. En ég tala eiginlega aldrei við þig. Ég hef fengið innsýn í líf þitt í gegnum konuna þína. Vissulega heyri ég bara aðra hliðina, þú átt eftir að benda mér á það og líklega nefna í leiðinni að hún sé snargeðveik og lygin. Mér nægir að hitta hana og heyra sögur úr lífinu hennar. Ég veit að hún er oft þreytt og kvíðin og að stundum finnst henni þetta allt vonlaust. Sem betur fer veit ég líka að hún er sterk þó henni finnist það ekki sjálfri. Ég veit að hún vonar að lífið verði betra. Ég veit að hún hittir vinkonur sínar ekki eins oft og áður, eiginlega er hún hætt að gera margt af því sem henni þótti skemmtilegast, varstu búinn að taka eftir því? Ég veit, afsakaðu að ég hegg svona nærri, að henni líður ekki vel í kynlífinu. Að oft finnst henni það ekki vitund gott en segir ekki neitt því hún er hrædd.

Ég veit að hún vonar að ofbeldið bitni ekki á börnunum ykkar. Ég held að þið vonið það bæði og trúið því líklega að þau taki ekki eftir neinu. Því miður segja rannsóknir að það séu litlar líkur á því að þetta sé rétt hjá ykkur, börn vita miklu meira um það sem fer fram heima hjá þeim en við höldum.

Ég veit að margir velta því fyrir sér af hverju hún fer ekki frá þér en mér er það meiri ráðgáta af hverju þú gerir þetta. Hvernig þú getur dregið andann eftir að hafa sparkað í hana, hrækt á hana eða kallað hana viðbjóðslega hóru.

Ég veit að þú iðrast þess þegar þú hefur verið sem verstur. Að þú skælir jafnvel og lofar að gera þetta aldrei aftur. Og ég held að þú meinir það á þeirri stundu.

Það er til hjálp fyrir þig. Til dæmis meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar og raunar alls konar fagfólk sem gæti hjálpað þér við að læra að verða öðruvísi og jafnvel standa við loforðið um að síðasta skipti sem þú beittir konuna þína ofbeldi verði í rauninni það síðasta. Það verður erfitt en ég held að það gæti verið þess virði.

Ekki viltu í alvörunni vera svona?




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×