Skoðun

Opið bréf til mennta- og menningarmálaráðherra

Ragnar Auðun Árnason skrifar
18. október síðastliðinn hélt Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) í samstarfi við Landssamtök íslenskra stúdenta opinn fund á Háskólatorgi í aðdraganda Alþingiskosninga. Þar voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka sammála um að gera þyrfti breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Fulltrúar flokkanna voru flest allir sammála um að bæði þyrfti að innleiða styrki inn í námslánakerfið og að bæta þyrfti stöðu stúdenta.

Endurskoðun laga um LÍN mun taka einhvern tíma og ætti kannski engin furða að ekki hafi verið lagt fram frumvarp sem umturnar lánasjóðskerfinu eins og við þekkjum það. Kjör stúdenta verður hins vegar að laga hið snarasta.

Frítekjumark LÍN er í dag 930.000 kr. og ef árstekjur námsmanna eru hærri skerðist lánið sem nemur 45% af umframtekjum. Frítekjumarkið er skammarlega lágt og sumarlaun námsmanna skerða lán þeirra oftast nær umtalsvert. Frítekjumarkið var síðast hækkað árið 2014, en laun í landinu hafa hækkað um 32% skv. launavísitölu frá Hagstofunni síðan 2014.

Þá er grunnframfærsla námsmanna of lág, grunnframfærslan er byggð á grunnviðmiði neysluviðmiða velferðarráðuneytisins. Húsnæðiskostnaður tekur mið af leiguverði á stúdentagörðum, þó svo að almennt leiguverð sé mun hærra og einungis 9% stúdenta leigi á stúdentagörðum. Námsmenn fá þó ekki 100% framfærslu heldur tekur LÍN 92% af þessum grunnviðmiðum og færir námsmönnum. Einstaklingur í leiguhúsnæði eða eigin húsnæði fær því einungis 177.107 kr. á mánuði. Ef námsmaður reynir að afla aðeins meiri tekna til þess að ná endum saman þar sem 177.107 kr. er grátlega lág upphæð, þá er frítekjumarkið svo lágt að lánin lækka talsvert mikið mjög fljótt. Þessu þarf að breyta en ekkert gerist ef stjórn LÍN og stjórnvöld taka ekki höndum saman.

Úthlutunarreglur LÍN eru þær reglur sem ákvarða kjör stúdenta sem taka námslán hjá LÍN ár hvert. Stjórn LÍN ákvarðar úthlutunarreglur fyrir næsta skólaár og menntamálaráðherra staðfestir þær svo í byrjun apríl sé hann samþykkur þeim. Yfirleitt byrjar vinna við úthlutunarreglur á vettvangi stjórnar í byrjun desember. Það hefur hins vegar ekki gerst þar sem enn hefur ekki verið skipað í stjórn LÍN. Nú stefnir allt í það að stúdentar fá litlar sem engar kjarabætur líkt og síðustu ár. Því skora ég á mennta- og menningarmálaráðherra að skipa stjórn LÍN sem fyrst svo kjaramál stúdenta sitji ekki enn og aftur á hakanum.

Ragnar Auðun Árnason, lánasjóðsfulltrúi SHÍ

Höfundur situr í stjórn LÍN fyrir hönd stúdenta við HÍ og HA




Skoðun

Sjá meira


×