Skoðun

Opið bréf til Auðuns Freys Ingvarssonar framkvæmdastjóra Félagsbústaða hf.

Ásta Guðjónsdóttir og Halla Guðmundsdóttir. skrifar
Þann 17. september sl. birti DV viðtal við þig og umboðsmann borgarbúa. Þar voru þið sammála um að umfjöllun hafi aukist um myglu og þá hættu sem af henni stafar.

Að þinni sögn virðist vandinn vera nær alltaf hjá íbúum og þeim sem þá aðstoða en ekki hjá Félagsbústöðum hf.  

Þú talar um að lögfræðingar hvetji fólk til að fara í skaðabótamál á hendur ykkur, læknar greini fólk með húsasótt ef engin önnur greining finnist, íbúar skapi myglu sjálfir vegna óþrifnaðar, að íbúar séu að fiska eftir „tilhæfulausum” bótum, niðurfellingu á leigu og myglu sé beitt af „tylliástæðu” til að auka líkur á milliflutningi.

GRÓ -  hagsmunasamtök um tengsl heilsu við raka og myglu voru stofnuð til að standa vörð um hagsmuni þeirra sem veikjast af völdum myglu og raka . Eftir lestur fyrrgreinds viðtals vill GRÓ koma á framfæri upplýsingum hvað þessi mál varðar, vangaveltum og á sama tíma óska eftir betri rökstuðningi fyrir þeim ásökunum sem þú beinir að íbúum Félagsbústaða hf. hvað þessi mál varðar.

Halla Guðmundsdóttir
Almennt séð telst vöxtur myglusveppa/myglu innanhúss vera heilsuspillandi eins og staðfest er í leiðbeinandi skýrslu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um inniloft í sambandi við raka og myglu. 

Samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni eru ekki þekkt viðmiðunarmörk á hversu stórt umfang myglu telst heilsuspillandi. Því er mælt með, í heilsufarslegu tilliti, að fjarlægja alla myglu og þau byggingarefni sem hafa myglað og ekki er hægt að hreinsa. 

Sumar tegundir myglu gefa frá sér eiturefni sem getað hlaðist upp í innilofti. Sum þessara eiturefna geta jafnframt verið krabbameinsvaldandi.

Við  gerum  ekki ráð fyrir að mörg mál fari fyrir dómsstóla, þar sem íbúar ykkar hafa  einfaldlega ekki fjármagn til að standa í slíkum málaferlum. Lögfræðiþjónusta er dýr og  það sárvantar lögmenn sem bjóða upp á þjónustu fyrir fólk með lítil fjárráð þannig að hægt væri að  borga  x prósentur eftir að mál er unnið fyrir dómi.

Væri ekki skynsamlegra að snúa vörn í sókn og stuðla að fræðslu og forvörnum fyrir ykkar íbúa og alla þá sem koma að Félagsbústöðum hf. 

Eru til fordæmi fyrir því að leigjendur séu að fiska eftir „tilhæfulausum“ bótum, niðurfellingu á leigu og að myglu sé beitt sem „tylliástæðu“ til auka líkur á milliflutningi? 

GRÓ hefur upplýsingar um  nokkur dæmi þar sem íbúar hafa óskað eftir að fá  aðila með sérþekkingu á myglumálum til að gera úttekt á íbúðum sínum en verið neitað. Í þeim tilfellum hafa  þau mál snúið að raka/myglu vegna viðhaldsleysi en ekki sóðaskapar eða ónógrar loftunar.

Er það úr vegi að þið leyfið íbúum ykkar að njóta vafans og fá úttekt á íbúð hjá óháðum aðila.  

Heilsan verður aldrei keypt með peningum og því miður vitum við það af eigin reynslu.

Í stuttu máli er þetta dæmi um ferli hjá aðila sem flytur heill heilsu inn í íbúð þar sem skaðleg mygla er til staðar. Íbúi byrjar að fá ýmis líkamleg einkenni eins og t.d. höfuðverk, öndunarfæraeinkenni, bólgur, doða, þreytu ásamt ýmsum öðrum einkennum. Þetta ferli tekur mismunandi langan tíma og fer það eftir einstaklingum hverju sinni. Flestir leita til læknis og greina frá vanlíðan sinni en oftast finnst engin skýring á heilsubresti einstaklingsins, jafnvel í mörg ár. Vegna vitundarvakningu nú síðustu ár hafa læknar áttað sig á að húsnæði tengd leka/raka og myglu hafa áhrif á heilsu manna. Læknar eru því farnir að  spyrja skjólstæðing sinn hvort það sé mögulega raki/leki og/eða mygla í húsnæðinu. Það er ekki svo auðvelt að svara því þar sem raki og mygla geta verið falin innan veggja, undir gólfefnum eða á öðrum stöðum þar sem sjónræn skoðun dugar ekki til. Það er ástæðan fyrir því að skjólstæðingum er bent á að flytja út af heimili sínu í fáeina daga til að sjá hvort við það verði heilsufarsbreyting. Það er ekki sjálfgefið að fá úrskurð um veikindi af völdum myglusvepps/húsasótt og læknar gefa ekki út vottorð vegna myglu/húsasóttar nema ástæða þyki til. Það eru til dæmi þess að læknar gefa út vottorð um það að skjólstæðingi er ráðlagt að vera ekki í ákveðnu húsnæði þar sem er staðfest að viðvera þar veldur því að einkenni versna. Einnig er til fordæmi  þess að læknir hafi komið og skoðað íbúð m.t.t. veikinda sjúklings.

Tekur þú vottorð frá læknum ekki alvarlega?

Í viðtalinu tekur þú dæmi um læknisvottorð sem kom inn á borð til ykkar, þess efnis að íbúð frá ykkur sé heilsuspillandi. Er möguleiki á að sá aðili sé fárveikur vegna myglusveppa og raka í íbúð frá ykkur og hafi undir höndum niðurstöður sýnatöku  sem læknir hefur byggt vottorð sitt á? 

Myndir þú láta bjóða þér og fjölskyldu þinni að búa við eitraðar/mengaðar/sýktar mygluaðstæður?

Hvaða aðilar meta það sem svo að ykkar íbúðir séu almennt í betra ástandi en gengur og gerist á almennum leigumarkaði?

Hvaða sérfræðingur á ykkar vegum gefur álit um ástand, hundsar niðurstöður sýnatöku og ályktar um óþrifnað íbúa?

Þar sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sinnir eftirliti með ykkar íbúðum og af þinni sögn notast við sjónræna skoðun erum við nokkuð viss um að þið sjáið ekki nema toppinn á ísjakanum. Til að framkvæma  ástandsskoðun m.t.t. heilsu fólks þarf að notast við rakamæla til að finna möguleg upptök á raka/ leka ásamt því að taka sýni úr byggingarefni til frekari rannsóknar. Stundum finnst enginn raki en byggingaefnin geta verið orðin þurr en mygluð. Mygla er ekki alltaf sýnileg. Myglan getur verið í ýmsum litum, ekki bara svört eða græn, jafnvel glær. Því miður höfum við heyrt að áherslan hjá ykkur sé ekki að taka sýni og skoða niðurstöður.

Væri ekki betra ef þið mynduð ráða til ykkar aðila með sérfræðiþekkingu á byggingum m.t.t.  raka og myglu?

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Félagsbústaðir hf. heyra bæði undir Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Félagsbústaðir hf. eru dótturfyrirtæki Reykjavíkurborgar. 

Væri ekki skynsamlegt að óháðir aðilar kæmu að málum sem þessum, ásamt Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Það er því ekki úr vegi að vitna í húsaleigulögin:

Helstu ákvæði reglugerðarinnar er geta varðað inniloft, raka og myglu í híbýlum eru:

- húsnæði skal fullnægja almennum skilyrðum um rými, birtu, upphitun og loftræsingu (14.gr.)

- almenningur getur leitað til heilbrigðisnefndar ef leiguhúsnæði og annað íbúðarhúsnæði er ekki talið fullnægjandi m.t.t. hollustuhátta eða ef húsnæði er álitið heilsuspillandi (16.gr)

- byggingar og mannvirki skulu hönnuð, byggð og viðhaldið þannig að heilsu íbúa sé ekki

stefnt í hættu, m.a. vegna hita og raka (16. gr.)

- byggingarefni mega ekki vera skaðleg eða gefa frá sér skaðleg efni eða gufur (16. gr.)

- eigandi eða umráðamaður húss eða mannvirkis skal halda eigninni hreinni og snyrtilegri.

- ekki má leigja út íbúðarhúsnæði eða íbúðarherbergi ef heilsu íbúa er stefnt í hættu, m.a.vegna hita og raka (18. gr.)

Mygla hefur fundist  í opinberum byggingum og má þá t.d. nefna húsnæði Velferðarráðuneytis, Landsspítalann, Barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL), Grensásdeild, skrifstofur Alþingis, leik- og grunnskóla, frístundaheimilum, Heilsugæslu, Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis (á vegum Rvk borgar).

Starfsmenn og skjólstæðingar  hafa kvartað yfir veikindum og sumir hafa því miður þurft að leggja niður störf sökum mygluveikinda/húsasóttar.

Við minnumst þess ekki að hafa séð slíka umfjöllun, að starfsmönnum/skjólstæðingum sé um að kenna myglan, frá yfirmönnum þessara stofnana, heldur hefur ljósi verið varpað á hið raunverulega vandamál. Oftar en ekki er það skortur á viðhaldi  húsa og þá oft vegna skorts á fjármagni en í sumum tilfellum vegna skorts á þekkingu. 

Heilsutjón af völdum raka og myglu er því miður raunveruleg ógn sem við stöndum frammi fyrir. Því fyrr sem við tökum á þessum vanda og viðurkennum að hann er til staðar því auðveldara verður að uppræta hann og fyrirbyggja í framhaldi af því. Það dýrmætasta sem hver maður á er góð heilsa og við eigum að bera virðingu fyrir því. 

Heilsa er fátækra manna fasteign

Virðingarfyllst, f.h. GRÓ - samtaka um tengsl heilsu við raka og myglu, Ásta Guðjónsdóttir og Halla Guðmundsdóttir.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×