Innlent

Önnur vinnustöðvun flugvallastarfsmanna hófst í nótt

Búist er við mikilli örtröð á Keflavíkurflugvelli um klukkan níu þegar vinnustöðvun lýkur, líkt og gerðist þegar starfsmenn lögðu niður vinnu þann áttunda apríl síðastliðinn.
Búist er við mikilli örtröð á Keflavíkurflugvelli um klukkan níu þegar vinnustöðvun lýkur, líkt og gerðist þegar starfsmenn lögðu niður vinnu þann áttunda apríl síðastliðinn.
Boðuð fimm klukkustunda vinnnustöðvun flugvallastarfsmanna hófst klukkan fjögur í nótt og er búist við mikilli örtröð í Leifsstöð um og upp úr klukkan níu, þegar innritun farþega getur loks hafist, ásamt innvigtun farangurs og vopnaleit.

Öllum vélum Icelandair til Evrópu seinkar þar til upp úr klukkan tíu og seinkun verður á flugi Wow Air til og frá Kaupmannahöfn, London og Varsjár, en hvorugt félaganna mun aflýsa neinu flugi.

Icelandair býst við einhverri röskun á flugi á morgun, á meðan verið er að vinna seinkanirnar endanlega upp. Ekkert innanlandsflug mun heldur hefjast fyrr en eftir klukkan níu.

Samningafundur fulltrúa Isavia og flugvallastarfsmanna stóð fram á kvöld í gær og hefur nýr fundur verið boðaður í dag, en samkvæmt heimildum fréttastofunnar ber enn mikið í milli deilenda.

Ótímabundið allsherjarverkfall flugvallastarfsmanna hefst 30. apríl, ef ekki hefur samist fyrir þann tíma.

Í tilkynningu frá Isavia segir að unnið sé eftir viðbragðsáætlun, sem miði  að því að takmarka sem mest röskun og óþægindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×