Innlent

Ómerkja sýknudóm yfir manni sem var sakaður um ölvunarakstur

Birgir Olgeirsson skrifar
Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur ómerkt dóm Héraðsdóms Norðurlands vestra yfir karlmanni sem sýknaður var af ákæru um ölvunarakstur. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis aðfaranótt 7. febrúar 2014.

Maðurinn hafði haldið því fram að annar maður hefði ekið bifreiðinni umrætt sinn og var hann sýknaður í héraði þar sem sekt hans taldist ekki sönnuð. Í dómi Hæstaréttar kom fram að lögreglumaður, sem kom að manninum umrædda nótt, hefði borið fyrir dómi að maðurinn hefði ekki nefnt við sig að annar en hann hefði ekið bifreiðinni. Þá hefði maðurinn ekki skýrt frá því við skýrslugjöf hjá lögreglu að svo hefði verið heldur hefði hann fyrst  haldið því fyrst fram við aðalmeðferð málsins.

Nafngreint vitni hefði auk þess borið að það hefði séð manninn aka bifreiðinni og tvö önnur vitni skýrt frá því að maðurinn hefði verið einn á ferð umrætt sinn.

Þá hefði mjög skammur tími liðið frá því að lögreglu barst tilkynning um akstur mannsins þar til hún hefði haft afskipti af honum. Að virtum framburði mannsins og vitna var talið að líkur væru á að mat héraðsdómara á sönnunargildi væri rangt svo máli skipti um málsúrslit. Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.

Sjá dóm Hæstaréttar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×