Handbolti

Ómar Ingi svellkaldur á vítapunktinum og tryggði sínu liði jafntefli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon.
Ómar Ingi Magnússon. Vísir/Vilhelm
Ómar Ingi Magnússon var hetja sinna manna í 29-29 jafntefli Århus GF á móti Skjern í Íslendingaslag í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Áttunda mark Ómars Inga í leiknum tryggði Århus GF jafntefli 50 sekúndum fyrir leikslok. Jöfnunarmark Ómars kom úr víti. Ómar Ingi fékk tækifæri til að tryggja Århus GF sigurinn en lokaskot hans fór í vörnina.

Ómar Ingi var langmarkahæstur í liði Århus GF með átta mörk en tveir aðrir Íslendingar komust á blað í leiknum. Sigvaldi Guðjónsson skoraði fjögur mörk og Róbert Gunnarsson var með eitt mark.

Ómar Ingi nýtti 8 af 12 skotum sínum í leiknum en fjögur af mörkum hans voru af vítapunktinum. Hann átti einnig þrjú mörk.

Tandri Már Konráðsson var næstmarkahæstur í liði Skjern með fimm mörk en hann fór á kostum á úrslitastundu.

Tandri Már Konráðsson skoraði fjögur mörk á síðustu fjórtán mínútum leiksins þar á meðal þrjú í röð þegar hann breytti stöðunni úr 20-23 fyrir Århus GF í 23-23.

Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk á fyrstu 33 mínútum leiksins en hann kom Århus GF í 18-15 þegar 27 mínútur voru til leiksloka. Ómar Ingi náði að jafna metin í 28-28 tæpum tveimur mínútum fyrir leikslok og svo aftur á lokamínútunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×