Sport

Ólympíumeistari hættir á toppnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jessica Ennis-Hill hefur verið ein besta frjálsíþróttakona heims undanfarin ár.
Jessica Ennis-Hill hefur verið ein besta frjálsíþróttakona heims undanfarin ár. vísir/getty
Jessica Ennis-Hill, Ólympíumeistari í sjöþraut, hefur lagt kúluna, spjótið og skóna á hilluna en hún er hætt keppni í frjálsíþróttum. Frá þessi greinir út á Instagram-síðu sinni í dag.

Ennis-Hill heillaði heimsbyggðina upp úr skónum og varð að einni skærustu íþróttastjörnu Breta þegar hún vann gull í sjöþraut á Ólympíuleikunum í Lundúnum fyrir fjórum árum síðar.

Þessi magnaða íþróttakona varð ólétt fyrir þremur árum og eignaðist son árið 2014. Hún sneri aftur á keppnisvöllinn í fyrra og vann gull í sjöþraut á HM í Peking.

Ennis-Hill varð að játa sig sigraða á Ólympíuleikunum í Ríó á dögunum þar sem hún tók silfur í baráttunni við hina belgísku Nafissatou Thiam. Hún var á toppnum í sjö ár eftir að hún vann sitt fyrsta gull á stórmóti á HM í Berlín árið 2009.

Sú breska kveður sportið með gull og silfur frá ÓL, tvö HM-gull og eitt silfur og eitt gull frá EM 2010 í Barcelona.

„Ég er svo heppin að hafa átt svona frábæran feril í íþróttinni sem ég elska. Þess vegna er þetta ein erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið. Ég veit samt að hætta núna er það rétta í stöðunni,“ segir Ennis-Hill á Instagram-síðu sinni.

„Ég hef alltaf sagt að ég vil hætta á toppnum og ég sé ekki eftir neinu. Ég vil þakka fjölskyldunni minni og mínu magnaða liði sem hefur alltaf stutt mig og hjálpað mér að upplifa drauma mína. Einnig vil ég þakka þeim sem hafa stutt mig og fylgst með mínum ferli í gegnum árin,“ segir Jessica Ennis-Hill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×