Erlent

Ólympíuleikarnir 2024: Rómarborg dregur umsókn sína til baka

Atli Ísleifsson skrifar
Nú er ljóst að leikarnir munu fara fram í París, Los Angeles eða Búdapest.
Nú er ljóst að leikarnir munu fara fram í París, Los Angeles eða Búdapest. Vísir/AFP
Rómarborg hyggst draga umsókn sína um að halda Sumarólympíuleikana 2024 til baka. Nýkjörinn borgarstjóri Rómar segir að það yrði óábyrgð að sækjast eftir því að halda leikana.

Virginia Raggi var kjörinn borgarstjóri Rómar í júní síðastliðinn. Hún er fulltrúi Fimm stjörnu hreyfingarinnar.

Ólympíunefnd borgarinnar hafði vonast til að sannfæra Raggi um ágæti þess að halda leikana, en í frétt BBC kemur fram að hún hafi ekki mætt til fundar með fulltrúum nefndarinnar.

Rómarborg hýsti síðast leikana árið 1960. Borgin sóttist eftir að halda leikana 2020 en dró þá einnig umsóknina til baka vegna of mikils kostnaðar.

Boston og Hamborg hafa nú þegar dregið umsókn sína um að halda leikana árið 2024 til baka.

Nú er ljóst að leikarnir munu fara fram í París, Los Angeles eða Búdapest. Ólympíunefndir borganna þurfa að staðfesta umsókn sína fyrir 7. október næstkomandi og sýna fram á að borgaryfirvöld styðji við bakið á umsókninni.

Sumarólympíuleikar verða næst haldnir í Tókýó í Japan árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×