Innlent

Ölvaður maður gekk berserksgang í Öldutúnsskóla

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn lét illa á göngum Öldutúnsskóla.
Maðurinn lét illa á göngum Öldutúnsskóla. vísir/ja.is
Karlmaður í annarlegu ástandi var handtekinn við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði á ellefta tímanum í morgun eftir að hafa farið inn í skólann og ónáðað börn og starfsfólk. Maðurinn var með mikil læti inni á göngum skólans, en að sögn Valdimars Víðissonar, skólastjóra Öldutúnsskóla, urðu börnin ekki vör við manninn nema í stutta stund.

„Börnin urðu ekki vör við manninn þegar lögreglan handtók hann því við fylgdum honum út af skólalóðinni. Þetta eru verkferlar sem fara í gang þegar ókunnugir koma inn í skólann eða á skólalóðina,“ segir Valdimar í samtali við Vísi.

Valdimar segir manninn fyrst og fremst hafa verið með hávaða og almennt ónæði, þá stuttu stund sem hann hafi verið inni í skólanum. „Hann var hérna í annarlegu ástandi og var með læti á göngunum. Hann kom inn á kaffistofu starfsmanna og var með ónæði við börnin, en það var bara þegar það var verið að fylgja honum út.“

Börnin voru að leik í frímínútum þegar maðurinn kom inn í skólann, og að sögn Valdimars fór maðurinn aldrei inn í skólastofur. Maðurinn hafi ýtt í bolta eins barns og sveiflað höndunum að öðru barninu, en að barnið hafi ekki sakað. „Hann ætlaði að taka til þess með að sveifla höndunum en hann náði því ekki,“ segir hann. Gengið hafi verið með manninn meðfram vegg svo börnin yrðu einskis vör og þaðan út á skólalóð þar sem lögreglan beið mannsins.

Valdimar segist hafa gengið í skólastofur og rætt við börnin. Þá verði foreldrum sendur tölvupóstur vegna málsins í dag. Aðspurður segist hann telja manninn á milli tvítugs og þrítugs.

Frétt uppfærð kl. 13.40.

Í fyrstu var haft eftir Valdimar Víðissyni að maðurinn hefði reynt að slá til eins barns í skólanum. Í tölvuskeyti frá samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar segir hins vegar að maðurinn hafi ekki komið nálægt neinu barni í skólanum, en þó ýtt í bolta barns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×