Innlent

Ólöf ræður annan aðstoðarmann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórdís, Kristín og Ólöf taka við af þríeykinu Hanna Birna Kristjánsdóttir, Þórey Vilhjálmsdóttir og Gísli Freyr Valdórsson.
Þórdís, Kristín og Ólöf taka við af þríeykinu Hanna Birna Kristjánsdóttir, Þórey Vilhjálmsdóttir og Gísli Freyr Valdórsson.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er nýr aðstoðarmaður Ólafar Nordal innanríkisráðherra. Þórdís lætur þar með af störfum sem framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna sem hún hefur gegnt undanfarið eitt og hálft ár.

„Mér líst bara ótrúlega vel á þetta. Ég er bara mjög spennt,“ segir Þórdís í samtali við Vísi. Hún segir ákvörðunina nokkuð nýtilkomna og hún hafi þurft að hugsa sig um enda kunni hún vel við starf framkvæmdastjóra þingflokksins.

„Ólöf er ótrúlega öflug kona með mikla reynslu og flottur lögfræðingur. Ég hlakka ótrúlega mikið til að vinna með henni. Hún hefur sjálf sagt að hún geti örugglega kennt mér eitthvað,“ segir Þórdís.

Góðar móttökur frá starfsfólki

Tilkynnt var á dögunum að Kristín Haraldsdóttir, sérfræðingur við lagadeild Háskólans í Reykjavík, yrði aðstoðarmaður Ólafar. Nú eru þær því þrjár lögfræðimenntaðar sem ætla að þjóna innanríkisráðuneytinu og segir Þórdís hlakka til nýja starfsins.

„Við hljótum að verða ágætisteymi saman. Starfsfólkið hefur tekið vel á móti mér, þetta eru áhugaverðir málaflokkar og auðvitað risastórt ráðuneyti.“

Aðspurð hvort draga megi einhvern lærdóm af háttsemi fyrri aðstoðarmanna innanríkisráðherra vill Þórdís ekki tjá sig um það. Eins og frægt er orðið var Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að leka persónulegum upplýsingum um hælisleitanda úr ráðuneytinu.

Akurnesingur í húð og hár.

Þórdís er 27 ára lögfræðingur, hún lauk BA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 og ML gráðu frá sama skóla 2012.

Þórdís var kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar. Áður hefur Þórdís m.a. starfað hjá sýslumanninum á Akranesi, Marel og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og hún hefur verið virk í félagsstörfum, m.a. verið formaður ungra Sjálfstæðismanna á Akranesi, setið í stjórn SUS, sambandi ungra sjálfstæðismanna og stjórn Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík.

Þórdís Kolbrún er fædd og uppalin á Akranesi, hún er í  sambúð með Hjalta S. Mogensen, lögmanni og eiga þau tveggja ára gamlan son, Marvin Gylfa.


Tengdar fréttir

Kristín Haraldsdóttir verður aðstoðarmaður Ólafar

Ólöf Nordal hefur ráðið Kristínu Haraldsdóttur, sérfræðing við lagadeild Háskólans í Reykjavík, sem lögfræðilegan aðstoðarmann sinn. Kristín hóf störf í ráðuneytinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×