Innlent

Ólöf Nordal jarðsungin í dag

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ólöf Nordal var jarðsungin í dag.
Ólöf Nordal var jarðsungin í dag. vísir/GVA
Ólöf Nordal var jarðsungin frá Dómkirkjunni í dag. Ólöf lést, 50 ára að aldri þann 8. febrúar eftir baráttu við krabbamein. Ólöf Nordal var varaformaður Sjálfstæðisflokksins og vinsæll stjórnmálamaður þvert á flokka.

Hún varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1986, lauk lögfræðiprófi við Háskóla Íslands 1994 og fékk málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 1999. Þá lauk hún MBA námi við Háskólann í Reykjavík árið 2002.

Hún var alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi 2007-2009 og var þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður 2009-2013 og aftur frá árinu 2016. Ólöf tók við embætti innanríkisráðherra þann 4. desember 2014 og gegndi því embætti til 11. janúar á þessu ári.

Vinsældir Ólafar innan Sjálfstæðisflokksins voru miklar. Þar naut hún afgerandi trausts og fékk ætíð yfirburðakosningu þegar hún bauð sig fram til embætta innan flokksins sem og í prófkjörum hans.

Hún var kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi árið 2010 og gengdi því embætti til ársins 2013. Ólöf bauð sig síðan aftur fram í varaformannsembættið á landsfundi árið 2015 og gengdi því til dauðadags. Hennar er minnst á fjórum opnum í minningarsíðum Morgunblaðsins í dag.

Ólöf Nordal og Bjarni Benediktsson eftir að Ólöf var fyrst kjörinn varaformaður flokksins.Vísir/Valli
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksinser meðal þeirra sem minnist Ólafar. Hann segir Ólöfu ósjaldan hafa minnt hann á nauðsyn þess að tala við fólkið í flokknum.

„Hún lagði ávallt áherslu á að vera aðgengileg og í góðum tengslum við þá sem hún starfaði fyrir. Um leið var hún óhrædd við að taka skýra afstöðu og tala fyrir henni, skýra málin fyrir fólki. Sótti frekar í en forðaðist þá sem hún vissi að voru efins eða annarrar skoðunar. Þetta átti ekki síst við þegar mikið lá við og fólk kallaði eftir því að ræða stöðu landsmálanna. Þannig vann Ólöf Nordal, þingmaður, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, en framar öllu vinur okkar og fyrirmynd í svo mörgu, sín forystustörf," segir Bjarni í minningargrein sinni.

Hann segir að það hafi verið áfall þegar fréttin af veikindum Ólafar barst sumarið 2014, en meðferðin hafi gengið vel og undir lok ársins hafi allt bent til að hún gæti náð góðum bata. Bjarni minnist þess þegar hann bað Ólöfu að taka að sér embætti innanríkisráðherra.

„Ég fór til fundar við Ólöfu á afmælisdegi hennar, þann 3. desember 2014, og bað hana að taka að sér embætti sem utanþingsráðherra. Hún tók á móti mér í stofunni. Ég bar upp við hana erindið, hún stóð upp, horfði djúpt í augun á mér og gekk svo til hliðar án þess að mæla orð. Þegar hún kom aftur inn í stofuna mátti lesa svarið úr andliti hennar. Við féllumst í faðma. Ólöf tók við embætti næsta dag og varð afar farsæll ráðherra. Tæpu ári síðar var hún kjörin varaformaður flokksins að nýju," segir Bjarni.

Ólöf hafi búið yfir mannkostum sem ekki væru auðfundnir. Hún hafi haft hlýja nærveru, skarpa sýn og viljann til að vinna að framförum fyrir landið okkar með fólki og fyrir folk.

Frá því að sjúkdómur Ólafar lét vita af sér að nýju segir Bjarni hana hafa sýnt magnað baráttuþrek, sigurvilja og mikið æðruleysi. Í öllum viðtölum og framkomu hafi hún verið öllu því fólki stórkostleg fyrirmynd, sem vilji lifa lífinu og láta gott af sér leiða, þrátt fyrir glímu við sjúkdóm eða aðra erfiðleika.

„Engan hef ég þekkt traustari stuðningsmann í mínum störfum, meiri liðsmann fyrir Sjálfstæðisflokkinn og stefnu hans, betri vin í leik og starfi eða sannari baráttukonu fyrir framförum lands og þjóðar," segir Bjarni Benediktsson í minningargrein um Ólöfu Nordal.

Innanríkisráðherra hefur í mörg horn að líta og hér prófaði Ólöf flughermi Icelandair í Hafnarfirði.Vísir/GVA
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs minnist Ólafar sem ljónskörpum kvenskörungu úr Íslendingasögunum.

„Það sópaði að Ólöfu, hún var dökk yfirlitum og svipmikil, ljónskörp, málið gott og blæbrigðaríkt. Hún minnti um margt á kvenskörung úr Íslendingasögum og ekki spillti fyrir að hún gat verið meinfyndin og stríðin,“ skrifar Katrín.

„Þrátt fyrir að við værum hvor á sínum væng stjórnmálanna var Ólöf stjórnmálamaður af þeirri tegund sem leggur mikið upp úr því að ná sem mestri sátt um erfið mál og eins að hlusta á ólík sjónarmið. Þetta kom fram í störfum hennar sem innanríkisráðherra. Hún var málefnaleg og forðaðist gífuryrði en þó rökföst og ákveðin. Hún naut því virðingar þvert á allar flokkslínur.

Ólöf var ákveðin í því að láta veikindi sín ekki buga sig. Það sást til að mynda á því hvernig hún klæddi sig og bar í veikindum sínum, alltaf glæsileg. Húmorinn missti hún aldrei og í boði þingmanna á fullveldisdaginn síðasta lék hún við hvern sinn fingur, sjálfri sér lík.

Dauðinn hefur nú hrifið Ólöfu frá okkur allt of snemma. Nú er skarð fyrir skildi hjá fjölskyldu hennar en einnig meðal samferðamanna í stjórnmálum. Fráfall hennar minnir okkur á hverfulleika tilverunnar og að hver mínúta skiptir máli. Ólöf nýtti tíma sinn á vettvangi stjórnmálanna vel og hennar verður sárt saknað,“ skrifar Katrín.

Ólöf skoðaði nýtt fangelsi á Hólmsheiði.Vísir/Anton
Bryndís Hlöðversdóttir, Elín Blöndal, Hafdís Ólafsdóttir, Ingibjörg Þorsteinsdóttir, Margrét Viðar, Ragnheiður Snorradóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir minnast Ólafar í sameiningu og minnast þær veiðiferðar sem þær fóru allar saman í.

„Hún kom hart í hlað og steig fast á bremsuna fyrir framan veiðihúsið við Svarthöfða. Í skósíðum rúskinnsfrakka, hnéháum stígvélum og með barðastóran hatt stökk hún léttfætt út úr bílnum og greip með sér stóra ostakörfu með framandi ostum og flösku af góðu víni. Svo kom hún brosandi til okkar og lagði veitingarnar kæruleysislega á veröndina og lét þess getið að hún hefði kippt þessu með – eins og þetta hefði bara af tilviljun verið á eldhúsborðinu hjá henni þegar hún lagði í'ann. Klassískar laxaflugur í farteskinu. Veislan var hafin,“ skrifa þær.

„Alls staðar var gott að vinna með henni; hún sá lausnir þar sem aðrir sáu vandamál, hún sá tækifæri þar sem aðrir sáu hindranir og þegar að alvörunni kom tókst hún á við hana í stað þess að velta sér upp úr vandanum. Dass af kæruleysi var til bóta.

Ólöf fékk í heimanmund víðsýni, visku og umburðarlyndi. Hún var fagurkeri, næm á litbrigði lífsins, listakokkur, bókelsk – og bóhem. Hún lifði til fulls. Þess vegna var svo gaman að vera nálægt henni. Hún kynntist Tomma sínum á námsárunum og það fór ekki framhjá nokkrum sem kynntist þeim báðum að þau voru happafengur hvort annars. „Hann ber mig á höndum sér,“ sagði hún gjarnan. Og það var bara þannig.

Og þegar hún haslaði sér völl á opinberum vettvangi sást vel að þar fór kona sem ekki hafði gleymt sér á þröngu faglegu sviði; hún hafði til að bera skilning á mannlífinu og þá tilfinningalegu dýpt sem þarf til að vera góður stjórnmálamaður,“ skrifa vinkonurnar í hinstu kveðju sinni til Ólafar.

Vísir/Stefán
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra minnist Ólafar og er tíðrædd um gáfur Ólafar.

„Það er of sjaldgæft að vitsmunaverur reki á fjörur Alþingis. Ólöf bar hins vegar mannvit í bunkum. Mér er ógleymanleg lokaræðan þegar Alþingi ræddi frumvarp hennar um lögræðissviptingu. Óvanalega löng og djúp umræða spannst um málið, og mér er í fersku minni hvernig Ólöf vatt það upp í lokin. Hún svaraði blaðlaust hríð flókinna spurninga – sem fæstir ráðherrar geta án þess að hafa aðstoðarmenn krunkandi á báðum öxlum – og lokaræðan var þrungin sannri mannúð og dýpt. Það var vitsmunalegt „tour de force“ sem enginn annar ráðherra hefði á þeim dögum leikið eftir. Sú ræða breytti afstöðu minni í veigamiklum þætti málsins,“ skrifar Össur.

„Dauðinn nístir aldrei jafn grimmilega og þegar hann hrifsar burt þau sem mest var gefið. Af ferli mínum á Alþingi minnist ég aldrei pólitísks mannsskaða sem risti jafn djúpt og hið sviplega fráfall Ólafar Nordal. Var þó að því langur aðdragandi. Meðal okkar sem unnum með henni alltof skamma hríð öðlaðist hún vini og velunnara í öllum flokkum, og átti óskipta virðingu allra,“ skrifar Össur.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, minnist Ólafar hlýlega og segir að það hafi verið nánast sjálfgefið að Ólöf myndi leika stórt hlutverk í því að færa Ísland í rétta átt.

„Að þekkja Ólöfu var að þykja hún stórkostleg. Þeir sem fengu að kynnast henni nutu þess ætíð að eiga samskipti við hana, hvort sem þau fólust í því að segja gamansögur og spjalla um sameiginleg áhugamál eða takast á um stjórnmál. Návist við Ólöfu Nordal var eitt af því sem gerði starf þingmanns og ráðherra skemmtilegt. Það átti jafnt við um formlega fundi um samstarf stjórnmálaflokka, gleðistundir í samkvæmum, eða textaskilaboð í síma og bréf sem send voru milli borða eins og í skólastofu. Öll samskipti við Ólöfu, óháð formi eða efni, lyftu andanum. Af henni geislaði gleði og orka,“ skrifar Sigmundur.

Ólöf ræðið við þáverandi forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, skömmu eftir að hún tók við embætti innanríkisráðherra.Vísir/GVA
„Ólöf naut fullkomins trausts. Við hana var hægt að ræða mál sem maður hefði annars aldrei rætt við liðsmann annars flokks. Samöl við hana um stjórnmál voru samræður við pólitískan andstæðing og samherja í senn en fyrst og fremst samræður við ákveðinn, skemmtilegan og gáfaðan stjórnmálamann sem bæði skildi viðfangsefnin og skýrði. Aðkoma hennar að málum var nánast alltaf til bóta því þótt maður gæti ekki vænst þess að ná öllu sínu fram var samtal við Ólöfu alltaf til þess fallið að færa mál í rétta átt.

Það virtist nánast sjálfgefið að Ólöf Nordal myndi leika stórt hlutverk í framtíð Íslands og því að færa landið í rétta átt. Það starf hefði hún unnið með glæsibrag eins og allt sem hún gerði. Fráfall hennar virðist enn óraunverulegt. Missir þeirra sem fengu að kynnast henni og Íslendinga allra er mikill. Engra þó eins og hinnar yndislegu fjölskyldu Ólafar sem ávallt var efst í huga hennar,“ skrifar Sigmundur.

Þá minnist Hanna Birna Kristjánsdóttir minnist arftaka hennar í starfi en Ólöf tók við embætti innanríkisráðherra þegar Hanna Birna lét af störfum.

„Á þeim tímamótum áttum við mörg eftirminnileg og einlæg samtöl um lífið, tilveruna og það sem mestu skiptir. Þar kynntist ég betur en áður konu sem hafði í gegnum sigra og sorgir lífsins öðlast visku og vissu um hvað skipti hana mestu, hafði tileinkað sér aðdáunarvert æðruleysi til verkefna líðandi stundar,“ skrifar Hanna Birna og bætir við.

„[E]n fyrst og fremst situr eftir minningin um hugrakka og hæfileikaríka konu sem hefði átt að fá svo miklu lengri tíma til að njóta lífsins og þess sem var henni kærast.“


Tengdar fréttir

Ólöf Nordal er látin

Ólöf Nordal varaformaður og þingkona Sjálfstæðisflokksins er látin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×