Innlent

Ólöf Nordal: Áskorun að stjórna á góðæristímum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Fara þarf með gát svo hægt sé að ná frekari árangri, segir innanríkisráðherra.
Fara þarf með gát svo hægt sé að ná frekari árangri, segir innanríkisráðherra. Vísir/Pjetur
„Það er öllum áskorun að stjórna á góðæristímum. Þá reynir á að standa á bremsunni á ákveðnum sviðum en sýna meiri undanlátssemi á öðrum,“ sagði Ólöf Nordal innanríkisráðherra í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.

Ólöf sagðist hafa fundið fyrir nokkurri óþreyju að undanförnu. Kallað sé eftir auknum fjármunum og breytingum í hverjum málaflokknum á fætur öðrum en að fara verði með gát svo að hægt verði að ná frekari árangri.

„Við skulum ekki gleyma því að ísland rambaði á bjargbrúninni. Núna er tíðin önnur. Það er nóg af peningum heyrist hvarvetna. Við séum fær um að gera alla hluti. Það sé nóg til. Þetta ákall er eitt skýrasta dæmið um þann árangur sem við höfum sameiginlega náð. En að sama skapi þarf að fara með gát. Árangur næst ekki af sjálfu sér og verkefninu er aldrei lokið. Ríkissjóður er enn skuldsettur og forgangsatriði er að lækka skuldir áfram. Það þarf að halda áfram að taka réttar ákvarðanir,“ sagði Ólöf í ræðu sinni.

Hún sagði að nú þurfi að forgangsraða, huga að nauðsynlegum innviðaverkefnum og horfa til framtíðar. „Það má ekki gleyma því að við erum að ráðstafa sameiginlegum fjármunum okkar allra. Við setjum stefnuna á heilbrigðiskerfið okkar. Við setjum stefnuna á grunnþjónustuna. Við hugum fyrst og fremst að því að tryggja að efnahagslegur ábati sem nú er í höfn renni til allra landsmanna, ekki síst til þeirra sem veikast standa og þurfa á stuðningi að halda.“

Hér má fylgjast með umræðunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×