Innlent

Ólöf Kristín nýr safnstjóri Listasafns Reykjavíkur

Atli Ísleifsson skrifar
Ráðningin er til fimm ára og tekur Ólöf Kristín við stöðunni 1. september næstkomandi þegar Hafþór Yngvason lætur af störfum eftir 10 ára starf.
Ráðningin er til fimm ára og tekur Ólöf Kristín við stöðunni 1. september næstkomandi þegar Hafþór Yngvason lætur af störfum eftir 10 ára starf. Mynd/Reykjavíkurborg
Ólöf Kristín Sigurðardóttir hefur verið ráðin í stöðu safnstjóra Listasafns Reykjavíkur. Ólöf Kristín var valin úr hópi níu umsækjenda.

Listasafnið er rekið í  þremur húsum; Hafnarhúsinu, Kjarvalsstöðum og Ásmundarsafni auk þess að bera ábyrgð á umsjón útilistaverka í eigu borgarinnar.

Ólöf Kristín hefur frá árinu 2008 gegnt stöðu forstöðumanns Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar þar sem hún er listrænn stjórnandi og ber ábyrgð á sýningadagskrá og annarri faglegri starfsemi safnsins svo sem fræðsludagskrá, tónleikum og öðrum menningarviðburðum. Sem stjórnandi Hafnarborgar hefur hún jafnframt borið ábyrgð á stefnumótun, stjórnun, fjármálum, rekstri og allri stjórnsýslu er varðar safnið.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að undir stjórn Ólafar hefur Hafnarborg ótvírætt markað sér sterkari sess í íslensku menningarlífi meðal annars með  fjölbreyttum og metnaðarfullum sýningum, fræðslustarfi, tónleikum og öðrum viðburðum sem eiga erindi við samtímann, spyrja spurninga og veita innsýn í margbreytilegan heim lista.

„Ólöf var um árabil deildarstjóri fræðsludeildar Listasafns Reykjavíkur; bar ábyrgð á stefnumótun, skipulagi og framkvæmd fræðslustarfs safnsins, sat í sýningarnefnd safnsins og kom þannig að því að móta sýningarstefnu þess auk þess að vera sýningarstjóri á annan tugs sýninga.

Ólöf Kristín útskrifaðist frá School of the Art Institute of Chicago árið 2003 með meistaragráðu í stjórnun listasafna og sýningargerð (Arts Administration) en í því skarast þrjár fræðigreinar; menningarstjórnun, safnafræði og listfræði. Hún útskrifaðist úr málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1989 og hefur jafnframt lagt stund á nám í listasögu og heimspeki á Ítalíu og við Háskóla Íslands.

Samhliða stjórnunarstörfum á sviði myndlistar og menningar hefur Ólöf sinnt kennslu og ýmsum trúnaðarstörfum innan myndlistarheimsins, háskólasamfélagsins og fyrir safnamenn. Þar á meðal má nefna formennsku Íslandsdeildar ICOM – Alþjóðaráðs safna, setu í Myndlistarráði og setu í stjórn Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar sem ber ábyrgð á vali fulltrúa og framkvæmd þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum.

Niðurstaða ráðningarnefndar, sem í sátu Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs, Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands og Kjartan Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri Volta ehf. og formaður stjórnar Listahátíðar í Reykjavík -  og ráðgjafa Capacent, sem sá um ráðningarferilinn, var því að Ólöf Kristín Sigurðardóttir mæti afar vel kröfum Reykjavíkurborgar um staðgóða þekkingu á sviði safnsins, meira en 5 ára reynslu af stjórnun og rekstri, leiðtogahæfni, frumkvæði og færni til að leiða þetta stærsta listasafn landsins áfram á farsælli braut. Jafnframt var haft samráð við menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur sem fagnar ráðningunni.

Ráðningin er til fimm ára og tekur Ólöf Kristín við stöðunni 1. september nk. þegar Hafþór Yngvason lætur af störfum eftir 10 ára starf,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×